Viðskipti innlent

Spáir lítilsháttar lækkun á ársverðbólgunni

Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,7% í september. Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga lækka lítillega, úr 10,9% í 10,7%.

 

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að áhrif útsöluloka verða talsverð í septembermælingu VNV og vega í heild til 0,5% hækkunar að mati greiningarinnar. Þá koma áhrif af álagningu vörugjalda á ýmsa flokka matvörur fram í september og vega til 0,2% hækkunar á VNV samkvæmt spánni.

 

Húsnæðisliður vísitölunnar mun að mati greiningarinnar vega til 0,1% lækkunar hennar, þótt óvissa um þennan lið sé raunar talsverð. Þá mun lækkun eldsneytisverðs undanfarið vega upp áhrif af hækkun á verði nýrra ökutækja samkvæmt spá okkar, en aðrir liðir vísitölunnar að jafnaði hækka lítillega.

 

Að því gefnu að gengi krónunnar gefi ekki verulega eftir á næstunni mun draga allhratt úr hækkunartakti VNV það sem eftir lifir árs og þar með verðbólgunni. Gerir greiningin ráð fyrir 1,5% hækkun VNV til áramóta, að september meðtöldum. Á sama tíma detta miklir hækkunarmánuðir út úr 12 mánaða takti verðbólgunnar og mun hún því hjaðna hratt á þann mælikvarða. Ef spáin gengur eftir verður verðbólga komin undir 6% í árslok.



Hver þróun vísitölu neysluverðs verður á næsta ári veltur að stórum hluta á þróun krónunnar og því hve mikill hluti þeirra skattahækkana sem vænta má um áramót verður í formi neysluskatta. Áhrif gengisbreytinga í spánni fyrir árið 2010 eru fremur væg, en spáin hljóðar upp á 1,2% verðbólgu yfir árið.

 

Gríðarleg óvissa er hins vegar um hver gengisþróun muni verða eftir því sem áætlun um afléttingu gjaldeyrishafta vindur fram og ber að skoða verðbólguspána fyrir næsta ár í því ljósi. Einnig er ekki loku fyrir það skotið að stjórnvöld kjósi að hækka neysluskatta verulega um áramótin, sem gæti leitt til talsverðrar hækkunar VNV í upphafi næsta árs.

 

Að þessum þáttum slepptum mun hins vegar innlendur verðbólguþrýstingur verða með minnsta móti á komandi misserum, enda teljum greiningin að fasteignaverð eigi enn eftir að lækka og að allangt sé í að draga fari verulega úr slaka á vinnumarkaði.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×