Viðskipti innlent

Sveiflan í vöruskiptum er ríflega 96 milljarðar milli ára

Vöruskiptin á fyrstu tíu mánuðum ársins hafa verið jákvæð um 65,7 milljarða kr. en á sama tíma í fyrra voru þau óhagstæð um 30,7 milljarða kr. Sveiflan á milli ára er því 96,4 milljarðar kr.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að innflutningur hefur dregist saman um 77,0 milljarða kr. á tímabilinu en útflutningur vaxið á móti um 19,4 milljarða kr. Batinn í utanríkisviðskiptum með vörur er því aðallega til kominn vegna samdráttar í innflutningi.

Rekja má minnkandi innflutning til samdráttar í innlendri fjárfestingu og neyslu sem svo aftur má rekja til þróunar gengis krónunnar, kaupmáttar launa, eignaverðsbreytinga, skuldsetningar og aðgengis að lánsfé svo fátt eitthvað sé nefnt.

Á fyrstu tíu mánuðum ársins voru fluttar inn vörur fyrir 366,7 milljarða kr. en á sama tímabili í fyrra var þessi innflutningur 443,7 miljarðar kr. Verðmæti vöruútflutnings á fyrstu tíu mánuðum ársins var hins vegar 432,7 milljarðar kr. samanborið við 413,0 milljarða kr. á sama tímabili í fyrra.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×