Viðskipti innlent

Vill afkomutengingu afborgana frekar en niðurfellingu

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands.
Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands. Mynd/GVA
Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor í Háskóla Íslands, leggur til að afborganir húsnæðislána verði tengdar afkomu lántaka í grein sem hann ritar í Morgunblaðið í dag. Þórólfur segir ógerning að fjármagna skuldaniðurfellingar sem einhverju máli skipta og leggur þessa leið frekar til.

Hann segir afkomutengingu eftirstöðva húsnæðislána hjá mjög skuldsetttum heimilum geta leyst bráðavanda þessara heimila og jafnframt dregið úr greiðslubyrði þeirra. Því sé leiðin hagstæðari en til dæmis lengingar í lánum.

Hann segir hugmyndina ekki nýja af nálinni. Í greininni bendir Þórólfur á að ríkisábyrgð Icesave samninganna sé bundin við tekjuþróun, endurgreiðslur námslána séu bundnar að hluta við tekjur lánþegans og þá hafi Bretar og Ástralar nýlega tekið upp svipað fyrirkomulag.

Hann segir ávinning lánþegans af tekjutengingunni að skerðing ráðstöfunartekna vegna lækkunar tekna verði minni, en lánveitandinn græði á minni afföllum vegna greiðsluþrots lántaka.

„Í fáum orðum sagt þykja afkomutengd lán draga úr áhættu lántaka án þess að auka áhættu lánveitanda að nokkru marki," segir í greininni.

Hann segir aðgang að viðkvæmum skattaupplýsingum nauðsynlegar til að aðgerðin gangi upp, og leggur því til að opinberir aðilar kaupi þann hluta lánakröfunnar sem er afkomutengdur og sjái svo um innheimtu lánsins í stað bankanna - jafnvel þannig að lánin séu innheimt sem hluti af skattgreiðslum líkt og gert er í Ástralíu og Bretlandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×