Innlent

Horn óx í auga hrúts og annan vantaði fót

Hornið á þessum hrúti hafði vaxið inn í augað á honum, þannig að hann var orðinn blindur á því. Augað var bólgið og það vessaði úr því.
Hornið á þessum hrúti hafði vaxið inn í augað á honum, þannig að hann var orðinn blindur á því. Augað var bólgið og það vessaði úr því.

Yfirvöld Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar bíða enn átekta eftir viðbrögðum þriggja ráðuneyta varðandi handsömun og slátrun útigangsfjár sem enn gengur laust á fjallshryggnum Tálkna. Í lok október náðust nítján kindur þaðan og var þeim slátrað. Þær voru í misjöfnu ásigkomulagi. Þeirra á meðal voru til dæmis hrútur með horn vaxið inn í auga, ær þar sem horn var um það bil að vaxa í auga og hrútur sem misst hafði neðan af fæti, að því er fram kemur í bókun dýraverndarráðs um málið.

Enn eru fimm til sjö kindur eftir sem ekki náðust í smöluninni.

Umhverfisráðherra vísaði málinu í haust til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, svo og dómsmálaráðuneytis til athugunar og umfjöllunar. Landbúnaðarráðuneytið skal fjalla um málið með tilliti til dýraverndunar og dómsmálaráðuneytið með tilliti til þess hvort lög hafi verið brotin við handsömun fjárins, að sögn Ragnars Jörundssonar bæjarstjóra Vesturbyggðar.

„Ég held að það geti ekki í neinu tilliti flokkast undir dýraverndunarsjónarmið að láta skepnurnar ganga svona,“ segir Ragnar.

Í hópnum sem eftir eru í Tálkna eru bæði ær og hrútar. Það má því búast við að féð fjölgi sér og fyrstu lömbin fæðist jafnvel í mars, meðan vetrarríki er enn á fjallshryggnum, að sögn Ragnars. Hann segir jafnframt að það stóra hlutfall hrúta sem var í hópnum sem náðist sýni að þeir hafi frekar komist á legg við harðan kost heldur en gimbrarnar, enda séu þeir harðgerari.

Í ályktun dýraverndarráðs segir meðal annars að aðstæður á Tálkna séu þannig að „ekki er unnt að sinna eftirliti með dýrunum og grípa inn í til að koma í veg fyrir eða stöðva þjáningar þeirra. Af þessum ástæðum styður dýraverndarráð að féð sé fangað og því komið undir manna hendur“.

Hins vegar harmar ráðið að við aðgerðirnar hafi dýr hrapað fyrir björg, en hefur skilning á að erfitt getur verið að koma í veg fyrir slíkt.

Bændasamtök Íslands hafa samþykkt að „lýsa eindregnum stuðningi stjórnar Bændasamtaka Íslands við framgöngu yfirvalda í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi við að framfylgja lögum um fjallskil og búfjárhald“.

jss@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×