Skoðun

Lóðaskortsstefna R-listans

Hver man ekki söng sjálfstæðismanna í Reykjavík allt síðasta kjörtímabil sem náði hámarki fyrir kosningar þar sem fullyrt var að Reykjavíkurlistinn stundaði lóðaskortsstefnu. Ekki var nægt lóðaframboð, lóðirnar voru ekki nógu ódýrar, Reykjavíkurborg var ekki að standast „samkeppni" við nágrannasveitarfélögin. Borgin var að dragast afturúr, allt vegna hinnar meintu lóðaskortsstefnu Reykjavíkurlistans. Þessi söngur var í efsta sæti vinsældalista sjálfstæðismanna árið 2006.

Sjálfstæðismenn skiptu svo sannarlega um gír hvað varðar úthlutanir lóða þegar þeir komust til valda. Tekið var upp fastverðs fyrirkomulag á lóðaúthlutunum og lóðum í nýjum hverfum borgarinnar dælt út af miklu kappi, langt undir markaðsverði, í samkeppni við sjálfstæðismenn í Kópavogi. Nú er þessi bóla eins og aðrar bólur sjálfstæðismanna sprungin og sú skelfilega staðreynd blasir við, að fjárfestingar fyrir á annað hundrað milljarða króna standa nú ónotaðar og tekjulausar fyrir samfélagið í nýbyggingarhverfum. Til að vinda ofan af þessu þarf íbúafjöldi á höfuðborgarsvæðinu að aukast um 20%.

Þegar þetta er dregið fram í dagsljósið bregst formaður Skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, Júlíus Vífill Ingvarsson, við með því að reyna að kenna Reykjavíkurlistanum um ástandið. Segja það svo á „lágu plani" að tala um þessi mál, því á bak við tóma grunna séu harmsögur og brostnar vonir fjölskyldna. Þá þykir mér nú fyrst ástæða til að ræða málin. Ef engin væru fórnarlömbin og engar afleiðingar væri glæpurinn ekki stór og ástæðulaust að fara yfir stöðu þessara mála. En það eru afleiðingar og fórnarlömb og ljóst að stefna Sjálfstæðisflokksins brást í þessu sem svo mörgu öðru. Sjálfstæðismenn geta reynt að hagræða ýmsu en það er beinlínis móðgun við allt hugsandi fólk að þeir reyni að kenna Reykjavíkurlistanum og Samfylkingunni um offramboð á lóðum í Reykjavík eftir áralangan áróður sjálfstæðismanna um meinta lóðaskortsstefnu Reykjavíkurlistans.

Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingar.




Skoðun

Sjá meira


×