Viðskipti innlent

AGS: Stjórnvöld tilbúin að herða peningastefnuna

Í minnisblaði íslenskra stjórnvalda til framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemur fram að stjórnvöld segjast munu halda áfram að fylgjast með gengisstöðugleika og séu tilbúin til að herða enn frekar á peningastefnunni ef þörf krefur.

 

Markmið peningastefnu Seðlabankans verður áfram að halda gengi krónunnar stöðugu með gjaldeyrishöftum og háum stýrivöxtum. Ef létt verði á peningastefnunni gæti það haft í för með sér enn frekara gengishrun sem hefði slæm áhrif á skuldir fyrirtækja og heimila. Auk þess sé hætta á að slíkt gengishrun hefði í för með sér aukna verðbólgu.

 

Í minnisblaðinu segir að „viðeigandi" stýrivextir séu taldir nauðsynlegir til að tryggja gengisstöðugleika.. Minnisblaðið fylgir viljayfirlýsingu sem undirrituð er af Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra og Má Guðmundssyni, seðlabankastjóra.

 

Minnisblaðið var birt í dag með skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í stöðugleikasáttmála stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem undirritaður var í sumar var hins vegar stefnt að því að stýrivextir væru komnir niður fyrir tveggja stafa tölu fyrir fyrsta nóvember.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×