Viðskipti innlent

FIH verður ekki seldur í bráð

Í nýrri skýrslu um stöðu þrotabús Kaupþings kemur fram að vel gengur að endurskipuleggja eignir og endurheimta kröfur.Fréttablaðið/GVA
Í nýrri skýrslu um stöðu þrotabús Kaupþings kemur fram að vel gengur að endurskipuleggja eignir og endurheimta kröfur.Fréttablaðið/GVA

Danski bankinn FIH er traustur og verður ekki seldur við núverandi markaðsaðstæður enda má við því búast að betra verð fáist fyrir hann þegar fjármálamarkaðir rétta úr kútnum.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í uppfærðri skýrslu skilanefndar Kaupþings um þrotabú bankans og kom út í gær.

Kaupþing keypti FIH árið 2004 en Seðlabanki Íslands tók hann að veði gegn fimm hundruð milljón evra láni til Kaupþings í fyrrahaust. Nokkur endurskipulagning hefur átt sér stað innan FIH síðan þá, að því er segir í skýrslunni. Bankinn endurfjármagnaði sig með milljarðs dala skuldabréfaútgáfu í Bandaríkjunum í ágúst.

Þá kemur fram í skýrslu skilanefndarinnar að endurskipulagning eignasafna og endurheimtur lána gangi vel. Í lok september hafi verið lokið við endurheimtur á 29 milljörðum króna hjá viðskiptavinum í Evrópu. Það jafngildir því að 17,2 prósent viðskiptavina hafi greitt kröfur sínar að fullu á Norðurlöndunum en 7,7 prósent á meginlandi Evrópu.

Þá segir að búið sé að endurskipuleggja fjörutíu prósent af eignasafni gamla bankans í Evrópu og ellefu prósent á Norðurlöndunum. Til samanburðar voru 76 prósent eigna gamla Kaupþings á Norðurlöndunum á athugunarlista skilanefndarinnar í desember í fyrra en 44 prósent á Norðurlöndunum. - jab








Fleiri fréttir

Sjá meira


×