Viðskipti innlent

Jón fær framvegis 1,5 milljónir í laun hjá Stoðum

Jón Sigurðsson.
Jón Sigurðsson. MYND/Anton

Framkvæmdastjóri Stoða, Jón Sigurðsson, verður með 1,5 milljónir í laun hjá félaginu. Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því á forsíðu að Jón sé enn á ofurlaunum hjá félaginu þrátt fyrir að félagið hafi gengið í gegnum nauðasamninga.

Eiríkur Elís Þorláksson stjórnarformaður Stoða vildi ekki tjá sig um laun Jóns við Fréttablaðið í gær en nú hefur hann sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að Jón hafi síðustu misserin starfað samkvæmt ráðningarsamningi og hafi hann verið með um fimm milljónir króna í laun á mánuði.

Nauðasamningar Stoða voru samþykktir fyrr í sumar og segir Eiríkur að þá hafi verið ljóst að starfsemin myndi halda áfram. „Samkomulag hefur nú verið gert við framkvæmdastjóra félagsins sem felur í sér yfir 70% lækkun á launum hans," segir í tilkynningunni frá Eiríki um leið og hann áréttar að Stoðir séu ekki í meirihlutaeigu ríkisfyrirtækja eins og haldið er fram í frétt Fréttablaðsins.

Því má gera ráð fyrir því að Jón verði framvegis með um 1,5 milljónir króna í laun hjá Stoðum framvegis. Ekki náðist í Eirík Elís en Júlíus Þorfinnsson verkefnastjóri hjá Stoðum sagðist í samtali við Vísi í dag ekki geta sagt til um hvenær samkomulagið um launalækkunina hafi verið gert. Að því hafi hins vegar verið unnið allt frá því nauðasamningarnir voru samþykktir.




Tengdar fréttir

Ofurlaun þrátt fyrir nauðasamning Stoða

Jón Sigurðsson, fyrrum forstjóri Stoða sem áður hét FL Group, er enn á ofurlaunum hjá félaginu þótt það hafi komist í þrot fyrr á árinu og sé nú í meirihlutaeigu ríkisfyrirtækja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×