Innlent

Fórnalömbin samúðarfull með starfsmanni á plani

Valur Grettisson skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni.

„Við finnum til með manninum. Hann þarf greinilega á hjálpa að halda," segir Kristjana Kristjánsdóttir en hún ásamt manni sínum, Raymond McQueen og vinafólki ætluðu að taka bensín á Olís í Norðlingaholti í gærdag.

Ætluðu gullna hringinn

Starfsmaður bensínstöðvarinnar, sem er af erlendum uppruna, réðst á eiginmann hennar með ofbeldi en kalla þurfti á lögregluna sem handtók hann í kjölfarið. Þau ætla að kæra starfsmanninn. Þá ætlar ungur maður einnig að kæra starfsmanninn en þeim lenti saman þegar ungi maðurinn hugðist koma Raymond til bjargar.

Það var á milli tvö og þrjú í gær sem Kristjana og Raymond komu á bensínstöðina við Norðlingaholtið. Þau voru á leiðinni austur fyrir fjall með vinafólkinu sem er breskt.

„Við ætluðum að fara þennan klassíska gullna hring," útskýrir Kristjana.

Var hinn ljúfasti

Maðurinn hennar lagði óvart við þjónustudælu þegar þau komu á bensínstöðina. Starfsmaður á plani kom út til þeirra og var allur hinn ljúfasti að sögn Kristjönu.

„Ég gerði þá grín að því að breski maðurinn minn kynni ekki að lesa ensku leiðbeiningarnar," sagði Kristjana við starfsmanninn en á dælunni við hliðina á stóð self service. Maðurinn hennar færði bílinn að sjálfsafgreiðslunni og byrjaði að dæla bensíninu.

Kristjana segist þá hafa gengið inn í verslunina en starfsmaðurinn fylgdi henni eftir. Hún spurði hann þá hvar hún gæti borgað og hann benti henni á afgreiðslukassana sem voru inn í búðinni.

„Því næst fór ég á klósettið og í kjölfarið ákváðum við að fá okkur pylsu," segir Kristjana sem stóð í röðinni ásamt vinafólki. Hún segir að starfsmaðurinn hafi alltaf fylgt henni eftir en hún hafi ekki áttað sig á því hvað honum gekk til.

Hvað skilur þú ekki?

„Allt í einu segir hann við mig: Hvað skilur þú ekki? Það eru sjö kassar þarna, þú átt að borga þar," segir Kristjana sem brá talsvert við þessi óvæntu sinnaskipti. Hún svaraði honum fullum hálsi og benti honum á að þau ætluðu líka að fá sér pylsu. Eiginmaður Kristjönu kom til þeirra og beið með þeim í röðinni.

„Starfsmaðurinn segir skyndilega við mig illur: Ætlar þú ekki að borga?" segir Kristjana og bætir við að þá hafi starfsmaðurinn séð manninn hennar sem brosti að hinum sérkennilegu aðstæðum. Þá á starfsmaðurinn að hafa spurt af hverju hann væri að hlæja og steytti hnefa sínum framan í Kristjönu.

„Maðurinn minn segir honum þá að það væri skárra að hann kýldi sig frekar en mig. Og þá hjólaði hann bara í Raymond," segir Kristjana en atburðarásin varð hröð eftir það. Starfsmaðurinn henti Raymond upp að sælgætisrekka sem var í versluninni. Þeir tókust þarna á og mikið öngþveiti myndaðist.

Ungur maður til hjálpar

„Ungur maður sem var bara að borða þarna kom okkur til aðstoðar," segir Kristjana en ungi maðurinn reyndi að stöðva átökin en án árangurs. Starfsólkið hringdi strax á lögregluna og reyndi að stöðva áflogin. Að lokum tókst þeim að róa manninn. Lögreglan kom á vettvang og handtók hann. Skýrsla var tekin af starfsmanninum og honum sleppt í kjölfarið.

„Þetta var hræðilegt. Við vorum varla komin inn í verslunina þegar við vorum þjófkennd," segir Kristjana en þeim var öllum verulega brugðið eftir atvikið. „Það var ekki fyrr en á Selfossi sem við gátum haldið á kókflöskunum án þess að hella úr þeim."

Samúð með starfsmanni á plani

Kristjana segir starfsmanninn hafa alla sína samúð. Hún segir starfsfólk bensínstöðvarinnar hafa verið áfalli en maðurinn hafi aldrei sýnt af sér slíka hegðun að þeirra sögn, heldur þvert á móti.

„Ég veit ekki af hverju, en hann bara snappaði," segir Kristjana. Hún segist þakklát starfsfólki bensínstöðvarinnar sem hafa staðið sig ljómandi vel í þessum aðstæðum. Hún segir yfirmann bensínstöðvarinnar hafa hringt í þau og það sé vel hlúið að þeim.

Hún segir málið næstum spaugilegt þegar þau hugsa til baka.

„Við vorum einmitt að grínast með það að við þyrftum að hafa samband við Fóstbræður og segja þeim frá þessu," segir hún sem þótti atvikið minna frekar á glensatriði í anda grínþátta.

Ætla að kæra

Þau hjónin ætla að kæra starfsmanninn, „þó hann gæti átt erfitt, og ekki að ég viti eitthvað um það, þá á hann náttúrulega ekki að komast upp með þetta," segir Kristjana.

Aðspurð hvernig þeim líði segir Kristjana að þau taki málinu nokkuð létt. Verra sé þó að Raymond er meiddur á vinstri hendi en það er sennilega ekki mjög alvarlegt.

„Ég vona bara að þetta fæli mann ekki frá bensínsstöðvum í framtíðinni," segir Kristjana hlæjandi.

Þess má geta að manninum hefur verið sagt upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×