Viðskipti innlent

Ekkert lát á veikingu krónunnar

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Gengi krónunnar hefur lækkað um 0,5% í morgun og bætist sú lækkun við talsverða lækkun síðustu daga. Í gær lækkaði gengi krónunnar um 0,7% og hefur krónan nú lækkað um 2,9% frá því á föstudaginn.

Lokagildi krónunnar í gær var það lægsta á árinu. Viðskiptin í morgun hafa verið fremur lítil líkt og undanfarna daga og vikur. Evran kostar núna 184,1 krónur og hefur ekki verið dýrari á árinu. Dollarinn stendur í 128,5 krónum.

Greiningardeild Íslandsbanka segir í Morgunkorni sínu að gjaldeyrishöft, afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd, háir innlendir vextir og inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði hafa ekki náð því að styrkja gengi krónunnar undanfarið.

„Ákveðinn stöðugleiki náðist í sumar einfaldlega vegna þess að þá lágu viðskipti niðri að mestu og Seðlabankinn var afar duglegur við inngripin. Nú er hins vegar byrjað að kvarnast úr krónunni aftur og er það áhyggjuefni í ljósi stöðu íslenskra fyrirtækja og heimila sem varla þola mikla gengislækkun til viðbótar við það sem orðið er. Gengislækkunin lýsir þeirri vantrú sem er á myntinni," segir í Morgunkorninu.

Ætlunin er að fleyta krónunni á næstunni en ljóst er að talsverð vinna er eftir í því að byggja upp það traust á gjaldmiðlinum sem þörf er á til þess að krónan veikist ekki umtalsvert til viðbótar í kjölfar flots.

Seðlabankinn greip inn í gjaldeyrismarkaðinn síðastliðinn miðvikudag og keypti þá í tvígang krónur fyrir gjaldeyri. Bankinn hefur ekki átt fleiri viðskipti á markaðinum í vikunni. Seðlabankinn hefur reyndar fremur lítið gripið inn í markaðinn í þessum mánuði. Eru inngripin orðin þrjú í samanburði við tíu í júlí og nítján í júní.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×