Viðskipti innlent

Ónýt króna ein af ástæðum skráningu Össurar í Danmörku

Jón Sigurðsson forstjóri Össurar segir að ein af ástæðum þess að félagið hafi sótt um skráningu í kauphöllina í Kaupmannahöfn sé að íslenska krónan er ekki lengur gjaldgengur gjaldmiðill utan Íslands. Þetta kemur fram í spjalli Fréttastofunnar við Jón sem nú er staddur í Kaupmannahöfn.

„Staðan er sú að um helmingur af eigendum Össurar eru erlendir fjárfestar og þeir hafa brunnið inni með hlutafé sitt á Íslandi vegna þeirrar stöðu sem kominn er upp," segir Jón Sigurðsson. „Við urðum að bregðast við þessu."

Fram kemur í máli Jóns að lengi hafi staðið til að skrá Össur á annan hlutabréfamarkað en þann íslenska enda er Össur alþjóðlegt félag. „Það er hinsvegar svo að við erum alls ekki að flytja starfsemi okkar frá Íslandi. Raunar er þessi nýskráning í Kaupmannahöfn meðal annars til þess gerð að við getum haldið áfram á Íslandi," segir Jón.

Aðspurður segir Jón að alls ekki standi til að afskrá Össur úr kauphöllinni hér á Íslandi í framhaldi af skráningunni ytra.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Össur sótt um nýskráningu en hún á svo eftir að fá samþykki fjármálaeftirlitsins í Danmörku og kauphallarinnar þar. Hann reiknar með að búið verði að ganga frá málinu um miðja næstu viku og að fyrstu viðskiptin í Kaupmannahöfn gætu því átt sér stað næstkomandi fimmtudag eða föstudag.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×