Viðskipti innlent

Íslensk fyrirtæki spyrjast fyrir um krónubréfakaup

Nokkrar fyrirspurnir frá íslenskum fyrirtækjum og aðilum hafa borist til Seðlabankans um kaup á krónu/ríkisbréfum í eigu erlendra aðila.

Sem kunnugt er af fréttum hér á Fréttastofu vinnur Seðlabankinn nú að því að koma af stað ferli þar sem íslenskum fyrirtækjum, sem hafa tekjur í erlendum gjaldmiðlum, yrði gert kleyft að gefa út skuldabréf til langs tíma í erlendri mynt sem síðan mætti nota til að kaupa krónu/ríkisbréfin af þeim erlendu fjárfestum sem brunnið hafa inni með þessar eignir sínar vegna gjaldeyrishaftanna.

Er vinna Seðlabankans, eftir því sem Fréttastofan kemst næst, það langt komin að von er á auglýsingu frá bankanum um málið í náinni framtíð, jafnvel næstu dögum. Talið er að hægt sé að létta töluverðum þrýstingi af gengi krónunnar með þessum hætti.

Eins og Fréttastofan hefur greint frá eru forráðamenn Norðurál (Century Aluminium) áhugasamir um málið enda er áætlað að innlendur kostnaður þeirra við byggingu álversins í Straumsvík nemi eitthvað yfir 60 milljörðum kr.

Norðurál getur hugsað sér að gefa út skuldabréf í dollurum til langs tíma og nota þau til að útvega sér krónur frá hinum erlendu aðilum til að standa straum af innlendum kostnaði sínum. Ekki yrði greitt af þessum skuldabréfum fyrr en álverið fer að skila inn tekjum.

Önnur íslensk fyrirtæki sem gætu komið að þessu borði eru t.d. Össur og Marel en einnig hefur nafn Landsvirkjunar verið nefnt í þessu sambandi. Þá er hugsanlegt að einhverjar útgerðir/sjávarútvegsfyrirtæki hefðu einnig áhuga á málinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×