Viðskipti innlent

Gengi krónunnar stöðugt á yfirstandandi ársfjórðungi

Gengi krónu hefur fremur lítið breyst það sem af er síðasta fjórðungi ársins og flökt á gengi evru gagnvart krónu hefur verið með minnsta móti, þrátt fyrir að inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði hafi engin verið síðan í fyrstu viku nóvembermánaðar.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þasr segir að engin viðskipti hafa orðið á millibankamarkaði með gjaldeyri frá opnun markaðar í morgun þegar þetta er ritað (kl. 11:00) og er gengi evru gagnvart krónu því óbreytt frá föstudegi.

Greiningin segir það athyglisvert í ljósi þess að síðastliðinn fimmtudag var vaxtagjalddagi á ríkisbréfaflokknum RIKB 10 1210, þar sem erlendir fjárfestar áttu ríflega 50 milljarða kr. í októberlok samkvæmt Markaðsupplýsingum Lánamála ríkisins.

„Við teljum að vaxtagreiðslur til útlendinga vegna þessa gjalddaga gætu numið allt að 4 milljörðum kr., en svo miklar vaxtagreiðslur af ríkistryggðum bréfum hafa ekki fallið þeim í skaut í einum mánuði síðan í júní síðastliðnum," segir í Morgunkorninu.

„Krónan veiktist um hálft prósent á föstudaginn og teljum við útflæði vegna vaxtagreiðslunnar líklega orsök þessa. Evran kostar nú 184 kr. og hefur krónan lækkað um 1,6% gagnvart evru frá upphafi októbermánaðar".

Fram kemur að gera megi því skóna að hertar reglur Seðlabankans um færslur króna milli innlendra og erlendra reikninga hafi átt sinn þátt í að aftra frekari veikingu krónu undanfarnar vikur. Frá því gjaldeyrishöftin voru heft með þessum hætti hafa viðskipti á aflandsmarkaði nánast þurrkast upp vegna lítillar eftirspurnar eftir krónum. Samkvæmt vef Deutsche Bank er aflandsgengi evrunnar nú á bilinu 270-300 kr, eftir því hvort ætlunin er að kaupa eða selja evrur fyrir krónur.

Lengst af þessu ári var gengi evru gagnvart krónu hins vegar á bilinu 200-220 á aflandsmarkaðinum. Í þessu felst að einhverjir þeirra aðila sem áður keyptu krónur á aflandsmarkaði eru nú væntanlega tilneyddir til að eiga þau viðskipti á innlendum gjaldeyrismarkaði, sem léttir Seðlabankanum lífið í viðleitni sinni við að ná fram stöðugleika á gengi krónu.

Það sem af er desembermánuði hefur velta á millibankamarkaði með gjaldeyri verið með allra minnsta móti, og dæmi eru um 3ja daga tímabil engrar veltu. Það segir þó ekki alla söguna um gjaldeyrisviðskipti hérlendis, þar sem bankarnir þrír sem að millibankamarkaði standa leita ekki inn á hann nema verulegur munur sé milli gjaldeyrisinnstreymis og -útflæðis hjá einhverjum þeirra.

Ef hert höft hafa leitt til betri heimta á gjaldeyristekjum yfir í krónur kemur af sjálfu sér að bankarnir hafa síður þörf fyrir gjaldeyriskaup á millibankamarkaðinum og því þarf Seðlabankinn síður að hlaupa undir bagga með framboð gjaldeyris á þeim markaði.

„Fróðlegt verður hins vegar að fylgjast með hversu mikil áhrif vaxtagjalddagans í síðustu viku verða á gjaldeyrismarkaðinn. Í júní síðastliðnum greip Seðlabankinn til mestu inngripa í einum mánuði það sem af er árinu og seldi evrur fyrir jafnvirði 2,5 milljarða kr., væntanlega í því skyni að draga úr gengisfalli krónu vegna gjaldeyrisútstreymis tengdu vaxtagjalddögum þá," segir í Morgunkorninu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×