Viðskipti innlent

Um 2000 sækja um lækkun bílalána hjá Íslandsbanka

Um 2000 viðskiptavinir Íslandsbanka fjármögnunar hafa óskað eftir höfuðstólslækkun vegna bílalána, en hægt er að sækja um höfuðstólslækkun vegna bílalána í erlendri mynt og verðtryggðum krónum. Þá hafa um 900 viðskiptavinir sótt um greiðslujöfnun vegna erlendra bílalána hjá bankanum.

Í tilkynningu segir að höfuðstóll erlendra bílalána lækkar að meðaltali um 23%, en lækkunin getur verið meiri eða minni allt eftir myntsamsetningu. Höfuðstóll verðtryggðra lána lækkar um 5% en lækkunin í báðum tilfellum miðast við gengi og eftirstöðvar í október 2009. Höfuðstóll lánsins færist úr erlendri mynt og/eða verðtryggðum krónum yfir í íslenskar krónur með breytilegum óverðtryggðum vöxtum.

Viðskiptavinir geta sótt um höfuðstólslækkun fram til 1. mars 2010.

,,Höfuðstólslækkun bílalána hefur hlotið mjög jákvæðar viðtökur hjá okkar viðskiptavinum en við höfum jafnframt lagt áherslu á að bjóða uppá leiðir til þess að lækka greiðslubyrðina. Stór hluti viðskiptavina okkar er ekki með sín aðal bankaviðskipti í Íslandsbanka og því má segja að þetta sé einnig að nýtast viðskiptavinum annarra banka og sparisjóða," segir Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri Íslandsbanka fjármögnunar.

Sem dæmi má taka lán upp á 2,5 milljónir kr. sem var tekið í nóvember 2007 í erlendri mynt til 84 mánaða og stendur nú í 4,6 milljónum kr. með greiðslubyrði eru rúmar 86 þús. kr. Eftir höfuðstólsleiðréttingu lækkar höfuðstóllinn um það bil í 3,5 milljónir kr. og greiðslubyrði láns verður 54 þús. kr., miðað við að viðskiptavinur velji lengingu á lánstíma.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×