Innlent

Kvörtuðu undan fjarveru stjórnarliða

Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Þingmenn stjórnarandstöðunnar gerðu alvarlegar athugasemdir við fjarveru ráðherra og stjórnarliða í umræðum um Icesave í upphafi þingfundar í dag og hvort að ræða ætti um málið á kvöldfundi. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði ríkisstjórnina hafa komið sínum sjónarmiðum á framfæri. Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, óskaði eftir því að greidd yrði atkvæði með nafnakalli um hvort að ræða ætti málið fram á kvöld.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, kvartaði undan samráðsleysi og óskaði eftir því að þingflokksformannafundur yrði haldinn. „Það er ekkert sem liggur á að fara þessa leið."

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagðist hafa áhyggjur af ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Þeir væru greinilega úrvinda og afar þreyttir og gætu því eðlilega ekki tekið þátt í umræðum á kvöldfundum.

„Þetta gengur ekki lengur," sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. Ríkisstjórnin hefði engan áhuga á að heyra hvað stjórnarandstaðan hafi um málið að segja.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ítrekaði fyrri beiðni sína um að umræðum um Icesave frumvarpið verði útvarpað svo allir landsmenn gæti fylgst með.

„Það er ekki hægt að halda því fram að ríkisstjórnin hafi ekki komið sjónarmiðum sínum á framfæri," sagði Össur Skarphéðinsson.

„Þetta er nefnilega ekki spurning um fjölda heldur gæði háttvirtur þingmaður," sagði Össur og vísaði til ummæla Eyglóar sem benti á að fjórir þingmenn VG og átta þingmenn Samfylkingar hefðu tekið þátt í umræðum um Icesave í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×