Viðskipti innlent

Fjárþörf sveitarfélaga eykur framboð skuldabréfa

Verulegur hluti nýs framboðs á verðtryggðum skuldabréfum á þessu ári mun væntanlega stafa af lánsfjárþörf sveitarfélaga. Mun þetta vega gegn minna framboði íbúðabréfa en vænst var.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að til marks um þetta er útboð Lánasjóðs sveitarfélaga (LS) í skuldabréfaflokknum LSS 15 0224 síðastliðinn föstudag. Þessi skuldabréfaflokkur, sem er eins að uppbyggingu og næststysti flokkur íbúðabréfa (HFF24), er helsta fjármögnunarleið LS um þessar mundir og hefur hann stækkað nokkuð hratt undanfarið.

Í útboðinu á föstudag var tekið tilboðum að nafnvirði 1.840 milljónir kr. á ávöxtunarkröfunni 6,5%, en tilboð höfðu alls borist fyrir 2.040 milljónir kr. að nafnvirði. Stærð flokksins er nú ríflega 13 milljarðar kr., en til samanburðar er HFF24 u.þ.b. 123 milljarðar kr. að stærð.

Lánasjóður sveitarfélaga annast stóran hluta af langtímafjármögnun íslenskra sveitarfélaga, en það eru helst allra stærstu sveitarfélögin sem ráðist hafa í skuldabréfaútgáfu upp á eigin spýtur.

Sjóðurinn ráðgerir að gefa út skuldabréf fyrir 12-24 milljarða kr. í ár, en til samanburðar er áætluð fjármögnunarþörf sveitarfélaga í kring um 24 milljarða kr. á yfirstandandi ári, og þykir okkur líklegt að sú tala kunni að reynast hærri á endanum. Framboð verðtryggðra bréfa opinberra aðila verður því væntanlega talsvert á árinu, en Íbúðalánasjóður áætlar að gefa út íbúðabréf fyrir 33 - 38 milljarða kr.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×