Viðskipti innlent

Tveir kostir í Icesave

Ingimar Karl Helgason skrifar
Alþingismenn eiga tvo kosti í Icesave málinu, að mati lagaprófessors og hæstaréttarlögmanns: Að taka mið af lögfræðilegri stöðu Íslands og neita að samþykkja ríkisábyrgð, eða vísa málinu í samningaferli að nýju.

Stefán Már Stefánsson, prófessor í lögum við Háskóla Íslands, og Lárus Blöndal, hæstaréttarlögmaður, rita grein um Icesave málið í Morgunblaðið í dag. Þeir hafa áður skrifað um málið og fært fyrir því rök að Icesave samkomulagið standist ekki; það er að engin ríkisábyrgð sé á Tryggingasjóði innistæðueigenda. Þeir segja að þau vandamál sem nú blasi við megi rekja til þess að ekki hafi verið leitað eftir viðeigandi ráðgjöf, innanlands sem erlendis, áður en stjórnvöld gáfu yfirlýsingar í málinu og undirrituðu svo samninga. Samningarnir sem nú liggi fyrir Alþingi beri þess tæpast merki að lögfræðileg sjónarmið, til hagsbóta fyrir Ísland, hafi náð fram að ganga. Það bendi til þess að sjónarmiðunum hafi ekki verið nægjanlega haldið fram. Engin íslensk ríkisábyrgð verði á Icesave fyrr en eftir samþykkt Alþingis.

Stefán Már og Lárus segja að Alþingismenn standi nú frammi fyrir tveimur kostum. Taki þeir mið af lagalegri stöðu Íslendinga þá segi þeir nei! Sé það pólitískt mat þeirra að við verðum að semja, þá þurfi að rökstyðja það vel og síðan að vísa málinu aftur í samningaferli. Alla vega sé ljóst að samningarnir geti ekki staðið eins og þeir liggi fyrir þinginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×