Viðskipti innlent

Pfizer í málaferlum gegn Actavis og 7 öðrum framleiðendum

Bandaríski lyfjarisinn Pfizer hefur höfðað mál gegn Actavis og sjö öðrum lyfjaframleiðendum samheitalyfja vegna lyfsins Lyrica. Telur Pfizer að þessir framleiðendur hafi brotið gegn einkarétti sínum á lyfinu.

Lyrica er notað gegn m.a. verkjum, kvíða og flogaveiki. Við þingfestingu málsins fyrir dómstóli í Wilmington í Delaware kom fram í málskjölum Pfizer að fyrirtækið muni verða fyrir miklum og varanlegum skaða ef samkeppnisaðilar þess hefji framleiðslu á lyfinu áður en einkaréttur Pfizer rennur út.

Í umfjöllun um málið á Bloomberg-fréttaveitunni segir að auk Actavis séu þetta Teva Pharmaceuticals USA, Sandoz Inc., Lupin Ltd., Alphapharm Pty. Ltd., Wockhardt Ltd., Sun Pharma Global Inc og Cobalt Laboratories Inc. sem málsóknin beinist gegn.

Lyrica mun vera annað mest selda lyfið sem Pfizer framleiðir og það var upphaflega samþykkt af bandaríska matvælaeftirlitinu árið 2004. Einkarétturinn á að renna út árin 2013 og 2018.

Mindy Noonan talsmaður Actavis segir í samtali við Bloomberg að fyrirtækið tjái sig ekki um málaferli sem eru í gangi gegn því.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×