Viðskipti innlent

Þrjátíu yfirheyrslur vegna Exeter-málsins

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Þrjátíu yfirheyrslur hafa átt sér stað í tengslum við rannsókn embættis sérstaks saksóknara á Exeter Holding. Meðal þeirra sem hafa verið yfirheyrðir eru Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi forstjóri MP banka.

Þrjátíu yfirheyrslur hafa átt sér stað hjá saksóknara í tengslum við rannsóknina á máli Exeter Holding. Embættið hefur nú yfirheyrt Styrmi Þór Bragason, fyrrverandi forstjóra MP banka vegna málsins, en tjón MP banka var takmarkað þegar Exeter Holding fékk 1,1 milljarðs króna lán hjá Byr í tveimur hlutum, eftir bankahrunið, til að kaupa stofnfjárbréf af MP banka og af Jóni Þorsteini Jónssyni og Birgi Ómari Haraldssyni stjórnarmönnum í Byr.

MP banki hafði eignast sín stofnfjárbréf eftir veðkall á félag sem m.a var í eigu sparisjóðsstjóra Byrs. Þegar þetta gerðist var markaður með stofnfjárbréf lokaður. Lánið til Exeter Holding og tjón vegna lánsins lendir á sparisjóðnum.

Grunur leikur á að lánið hafi falið í sér umboðssvik og stjórn Byrs og sparissjóðsstjórinn hafi misnotað aðstöðu sína. Umboðssvik geta varðað allt að sex ára fangelsi.

Nú þegar hafa bæði sparisjóðsstjóri Byrs, Ragnar Zophonías Guðjónsson, og formaður stjórnar sparisjóðsins, Jón Kr. Sólnes, vikið tímabundið vegna rannsóknarinnar, en báðir eru þeir með stöðu grunaðra. Þá er Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri, einnig með stöðu grunaðs, en hann var sem kunnugt er úrskurðaður í tímabundið farbann vegna rannsóknarinnar.

Það var ekki framlengt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×