Viðskipti innlent

Hollenska ING bankasamstæðan velur íslenskt hugvit

Hollenska ING banka- og tryggingasamstæðan hefur valið íslenska hugbúnaðarfélagið Applicon til þess að vinna að innleiðingu á SAP bankahugbúnaði fyrir útlán bankans. ING er í hópi 25 stærstu banka Evrópu þegar miðað er við markaðsvirði.

Í tilkynningu segir að hjá ING starfa um 111 þúsund starfsmenn um heim allan. Um 72 þúsund vinna við bankastarfsemi en um 39 þúsund í tryggingastarfsemi, samkvæmt heimasíðu ING.

Applicon, sem hefur áralanga reynslu í verkefnum fyrir fjármálafyrirtæki á Norðurlöndum, hóf þátttöku í verkefni ING seint á síðasta ári. „Verkefnum fyrir ING hefur fjölgað á undanförnum mánuðum þar sem Applicon, í samstarfi við IBM, er að vinna að innleiðingu á bankahugbúnaði fyrir útlán," segir Hinrik Hansen framkvæmdastjóri erlendrar starfsemi hjá Applicon.

Hann segir að Applicon hafi aflað sér víðtækrar reynslu í verkefnum fyrir banka og fjármálafyrirtæki, einkum á Norðurlöndunum, við uppsetningu og þjónustu við kjarnakerfi þeirra. Meðal viðskiptavina má nefna Nordea, Swedbank og Handelsbanken.

"Applicon hefur lagt áherslu á að fjölga verkefnum fyrir banka og fjármálafyrirtæki í Evrópu og því kemur áralöng reynsla félagsins að góðum notum í slíkum verkefnum sem eru framundan."

Applion er norrænt ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki í viðskiptahugbúnaði með starfsemi á Íslandi, Danmörku og Svíþjóð. Hjá Applicon félögum vinna um 160 manns. Applicon er í eigu Nýherjasamstæðunnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×