Viðskipti innlent

Atvinnulausum fer fjölgandi á nýjan leik

Atvinnulausum fjölgaði í ágúst og er það í fyrsta sinn sem þeim fjölgar frá því í mars síðastliðnum samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun. Atvinnulausir skráðir á vinnumiðlunum í ágústbyrjun voru 15.217 en núna ríflega mánuði síðar eru þeir 15.480 og hefur því fjölgað um 263 á tímabilinu.

 

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að með þessu hafi snúist við þróunin sem hefur verið allt frá því í mars, en þá náði fjöldi atvinnulausra í lok mánaðar hámarki í 16.822.



Tvennt hefur verið að vegast á undanfarna mánuði í þróun atvinnuleysisins. Annars vegar er það undirliggjandi efnahagsþróun en þar hefur samdrátturinn verið vaxandi og atvinnuleysið af þeim sökum færst í aukana.

 

Hins vegar hefur það verið árstíðarsveiflan sem almennt er í atvinnuleysinu hér á landi og er þannig að atvinnuleysið lækkar að vori og yfir sumarmánuðina en hækkar síðan að hausti og fram eftir vetrinum. Ástæðan er meðal annars ársíðarbundin verkefnastaða fyrirtækja. Undanfarið hefur árstíðarsveiflan haft betur og atvinnulausum fækkað þrátt fyrir að dýpt samdráttarins í efnahagslífinu sé að aukast.



Á næstunni leggst hvorttveggja á eitt með að auka atvinnuleysið þ.e. árstíðarsveiflan og undirliggjandi efnahagsþróun. Hagkerfið mun líklegast ekki ná botninum í þessari niðursveiflu fyrr en á næsta ári og samdrátturinn mun dýpka þangað til. Árstíðarsveiflan mun síðan auka enn fjölda atvinnulausra á næstunni.

 

Greiningin reiknar með því að skráðum atvinnulausum muni fjölga nokkuð hratt næstu mánuði og að atvinnuleysið þannig mælt muni ná hámarki í mars eða apríl á næsta ári. Ekki er loku fyrir það skotið að atvinnulausir verði þá um 18-20 þúsund eða um 10-12% af vinnuaflinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×