Innlent

Fjölmiðlar vita meira en ég

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Borgarahreyfingarinnar.
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Borgarahreyfingarinnar.

„Það er bara eitt orð sem ég á yfir þetta og það er vanhæfni," segir Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Borgarahreyfingarinnar um þá staðreynd að öll fylgiskjöl með Icesave frumvarpinu, sem leggja á fyrir Alþingi á fimmtudag, séu ekki komin fram.

Hún segir óráðsíu að fara að skrifa undir eitthvað sem er ekki einu sinni ljóst. „Maður vill gefa sér góðan tíma til að skoða öll gögn málsins og það er með ólíkindum að maður sé að sjá og heyra fréttir í fjölmiðlum sem eiga að mínu mati að liggja fyrir hjá þingmönnum.“

Frumvarpið verður lagt fyrir Alþingi á fimmtudag og þá kemur í ljós hvort ríkið samþykki þann lánasamning sem nú liggur fyrir varðandi Icesave skuldbindingar ríkisins.

„Við þurfum öll að standa saman, bæði stjórn og stjórnarandstaða. Það gengur ekki að það sé unnið svona flausturslega í svona stóru máli og við verðum að fá gögnin tímanlega til að geta tekið upplýsta ákvörðun. Ætli ég fái ekki fréttirnar fyrst hjá ykkur áður en mér verður kunnugt um þau fylgiskjöl sem ríkisstjórnin liggur á og vill ekki upplýsa stjórnarandstöðuna um,“ sagði Birgitta að lokum í viðtali við Vísi.






Tengdar fréttir

Ríkisstjórnin vísar Icesave til Alþingis

Ríkisstjórnin samþykkti á aukafundi í morgun að vísa frumvarpi um ríkisábyrgðir vegna Icesave skuldbindinga til meðferðar Alþingis. Gert er ráð fyrir því að frumvarpinu verði dreift í dag og að þingið hafi málið svo til meðferðar næstu daga eða jafnvel vikur. Frumvarpið sjálft mun vera einfalt í sniðum, um það bil tvær blaðsíður, en því fylgja gögn sem eru sögð varpa frekara ljósi á málið.

Við viljum svör: Opinn borgarafundur um Icesave í Iðnó

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og aðstoðarmaður hans, Indriði Þorláksson, taka þátt í pallborðsumræðum á opnum borgarafundi um Icesave skuldbindingarnar sem haldinn verður í Iðnó klukkan átta í kvöld. Vonast er til að Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, sjái sér fært að mæta.

Gylfi Magnússon: Ísland getur vel staðið undir Icesave

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, sagði enga munu vilja lána eða eiga viðskipti við ríki sem ekki gerir upp sínar skuldir í óundirbúnum fyrirspurnartíma ráðherra á Alþingi í dag. Hann sagði íslenska ríkið jafnframt vel geta staðið undir skuldbindingum sínum vegna Icesave samninganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×