Viðskipti innlent

Fjögur skuldamál gegn Straumi tekin fyrir

William Fall, fyrrum bankastjóri Straums.
William Fall, fyrrum bankastjóri Straums.

Alls verða fjögur skuldamál gegn þrotabúi Straums-Burðarás tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þar á meðal er vinnulaunakrafa Willam Fall, fyrrum bankastjóra Straums, en hann sækir rúmlega 600 milljónir króna í þrotabúið. Í tilkynningu sem hann sendi frá sér fyrir um mánuði síðan tilkynnti William að hann myndi gefa peninginn til góðgerðarmála á Íslandi, verði krafan samþykkt.

Annar kröfuhafi, NóNó ehf., hefur einnig lögsótt þrotabú bankans og krefst 26 milljón króna. Fyrirtækið heitir Reykjavík Economics í dag og er í eigu Magnúsar Árna Skúlasonar sem fór fyrir Indefence-hópnum.

Stefna félagsins gegn Straumi er vegna gjaldeyrisviðskipta eftir þjóðnýtingu stóru bankanna. Þá mótaði félagið auk Straums greiðslumiðlunarkerfi til þess að bjóða viðskiptavinum upp á miðlun gjaldeyris til Íslands með skjótari hætti heldur en ef viðskiptin færu í gegnum Seðlabankann. Sjálfur sat Magnús í Seðlabankaráði Íslands en sagði af sér eftir ásakanir um að hann hafi ætlað að greiða fyrir aflandsviðskiptum með gjaldeyri og vinna þannig gegn gjaldeyrishöftunum.

Aðrar kröfur í Straum, og teknar eru fyrir í héraðsdómi í dag, eru af hálfu skilanefndar Landsbankans og svo Michaels Bellamy, sem var starfsmaður Straums.

Helsti eigandi Straums var Samson global holdings sem aftur var í eigu Björgólfsfeðganna, en Björgólfur Thor Björgólfsson var stjórnarformaður bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×