Viðskipti innlent

90 milljónir í aðkeypta lögfræðiþjónustu

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Ráðuneytin hafa keypt þjónustu lögfræðinga út í bæ fyrir tæpar níutíu milljónir króna það sem af er ári - þótt að minnsta kosti á sjöunda tug lögfræðinga séu starfsmenn ráðuneytanna. Alls hafa ráðuneytin keypt ráðgjöf fyrir um hundrað og níutíu milljónir króna á árinu.

Sultarólin er nú víða hert og því höldum við áfram að rýna í kostnað ráðuneytanna.

Nú er það aðkeypt ráðgjafaþjónusta. En bókhald er flókið á stóru heimili - og ansi margt sem fellur undir þennan lið, þar er kostnaður ráðuneytanna vegna þýðenda, túlka, tölvuþjónustu, jafnvel sálfræðinga, öryggisgæslu og ráðningafyrirtækja. En það kemur líklega engum á óvart - að sú stétt sem ráðuneytin hafa borgað mest fyrir ráðgjöf á árinu er stéttin sem engin kreppa bítur á - lögfræðingar.

Minnstur er sérfræði- og ráðgjafakostnaður hjá umhverfisráðuneytinu, þrjár og hálf milljón króna, hann fer síðan hækkandi og er langmestur hjá tveimur ráðuneytum:

Utanríkisráðuneytið hefur varið yfir tíu sinnum meira í aðkeypta ráðgjöf heldur en ráðuneyti umhverfismála það sem af er ári, 39,8 milljónum króna - um 70% er kostnaður vegna hrunsins.

Það sama gildir um fjármálaráðuneyti - sem hefur keypt ráðgjöf út í bæ fyrir 43 milljónir króna á árinu, tæplega 90% af þeim kostnaði er vegna hrunsins.

Samanlagt hafa ráðuneytin varið 189,3 milljónum króna í að kaupa ráðgjöf og sérfræðiþekkingu út í bæ á árinu.

Stærsti kostnaðarliðurinn eru lögfræðingar - mismikill eftir ráðuneytum - ekki króna fór í lögfræðinga hjá heilbrigðisráðuneytinu - en langmestur lögfræðikostnaður er hjá ráðuneytum utanríkis og fjármála, vegna hrunsins.

Nær 90 milljónir fóru í aðkeypta lögfræðiþjónustu - þótt að minnsta kosta 64 lögfræðingar starfi í ráðuneytunum.

Ríkissjóður hyggst verja um 550 milljörðum til samneyslunnar á næsta ári. 180 milljónir króna vega ekki þungt í þeim samanburði, en liðirnir eru margir, og til dæmis var fjórtán sagt upp á Reykjalundi fyrir mánuði - því þeir þurfa að skera niður um 90 milljónir á næsta ári. Enginn efast um þörfina fyrir Barnaspítala Hringsins - hann þarf að líkindum að skera niður um allt að 150 milljónir króna, sem er heldur minna en ráðuneytin hafa varið í aðkeypta þjónustu sérfræðinga á árinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×