Viðskipti innlent

Haldið í sólarhring vegna gruns um efnahagsbrot

Sigríður Mogensen skrifar
Frá húsleit. Mynd tengist ekki  fréttinni beint.
Frá húsleit. Mynd tengist ekki fréttinni beint.

Dæmi eru um að sérstakur saksóknari handtaki menn á leið til vinnu og færi þá til yfirheyrslu í tengslum við rannsókn mála. Einum var haldið í sólarhring og hann yfirheyrður vegna rannsóknar á lánveitingu Byrs til Exeter.

Alls eru hátt í þrjátíu mál komin inn á borð hjá sérstökum saksóknara bankahrunsins. Þar á meðal rannsakar embættið lánveitingu Byrs til félagsins Exeter sem átti sér stað skömmu eftir bankahrunið í fyrra. Menn á vegum Ólafs Haukssonar sérstaks saksóknara leituðu í höfuðstöðvum sparisjóðsins og hjá MP banka í síðasta mánuði í tengslum við þá rannsókn.

Heimildir fréttastofu herma að embættið hafi auk þess handtekið þá menn sem grunaðir eru í tengslum við málið sama dag og fært þá til yfirheyrslu.

Fréttastofa hefur fengið lýsingar á starfsháttum embættisins þann dag.

Menn á vegum embættisins sátu um þá grunuðu í morgunsárið og veittu þeim eftirför á leið til vinnu. Ýmist biðu starfsmenn sérstaks saksóknara eftir því að fólkið skilaði börnum sínum til skóla eða stöðvuðu fólkið þegar það settist upp í bíl sinn um morguninn.

Í öllum tilfellum var setið um viðkomandi aðila en starfsmenn sérstaks saksóknara voru í svörtum jeppa sem veitti þeim eftirför. Voru þeir grunuðu síðan færðir til yfirheyrslu, og í einu tilfelli stóð yfirheyrslan yfir í hátt í sólahring. Aðilar málsins sem fréttastofa ræddi við segja atburðarrásina hafa tekið á.

Nokkrir hafa réttarstöðu grunaðs í rannsókninni.

Hildigunnur Ólafsdóttir, afbrotafræðingur, sagði í samtali við fréttastofu í dag að eina hliðstæðan við þessar aðferðir sem hún þekkti væri Hafskipsmálið.

Þeir sem grunaðir voru í því máli hafi lýst atburðarrásinni á svipaðan hátt. Hún segir um eðlileg vinnubrögð lögreglu að ræða. Hins vegar hafi Íslendingar ekki mikla reynslu af alvarlegum og stórum efnahagsbrotum og því komi það fólki jafnvel í opna skjöldu að sömu aðferðum sé beitt í tengslum við rannsóknir á efnahagsbrotum líkt og í tengslum við rannsóknir annarra mála.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×