Viðskipti innlent

Icesave hleypir auknu lífi í skuldabréfamarkaðinn

Lífleg viðskipti hafa verið á skuldabréfamarkaði það sem af er morgni, og virðast tíðindi af Icesave hafa lagst vel í skuldabréfafjárfesta. Langmest eru viðskiptin með lengri flokka ríkisbréfanna. Tók krafa þeirra myndarlegan kipp niður á við fyrst eftir opnun í morgun, en sú hreyfing hefur að hluta til gengið til baka síðan.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þegar þetta er ritað (kl.11:45) er krafa lengsta ríkisbréfaflokksins, RIKB25, 8,12% og hefur lækkað um 20 punkta frá opnun markaða. Krafa RIKB19 er 7,98% eftir 22 punkta lækkun en krafan á RIKB13 er 7,34% eftir 12 punkta lækkun.

Hefur vaxtaferill ríkisbréfa allur hliðrast niður á við, að stysta flokknum undanteknum þar sem engin viðskipti hafa orðið. Alls nemur velta með helstu skuldabréfaflokka rúmum 12 milljörðum kr. það sem af er degi, og þar af er velta með ríkisbréf ríflega 10 milljarðar kr.

Engar breytingar hafa hins vegar orðið á gengi evru gagnvart krónu það sem af er degi, enda engin viðskipti verið á millibankamarkaði með gjaldeyri. Enn eru heldur engar breytingar merkjanlegar á aflandsmarkaði með krónur.

Skuldatryggingarálag til 5 ára á ríkissjóð hefur lækkað lítillega í dag og er nú 392,5 punktar. Álagið er þó enn nokkru hærra en það hefur farið lægst á þessu ári. Í lok september stóð það í 356 punktum en hækkaði nokkuð snarpt viku seinna í takti við almenna þróun á evrópskum mörkuðum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×