Viðskipti innlent

Exista tapaði 206 milljörðum á síðasta ári

 

Tap Exista á síðasta ári eftir skatta nemur um 1,6 milljarði evra eða 206 milljarða kr. Þetta kemur fram í tilkynningu um uppgjörið.

 

Bókfært eigið fé nam 200 milljónum evra eða 34 milljarðar kr. og lækkaði um rúm 90% á árinu. Heildareignir námu 2,3 milljörðum evra, eða 391 milljarði kr. og lækkuðu um rúm 70%.

 

Í tilkynningunni segir að heildarskuldir lækkuðu um 3,5 milljarða evra, 602 milljarða kr. eða um 63%

 

Fall Kaupþings banka hf. og sala eignarhluta Exista í Sampo Group hafði verulega neikvæð áhrif á afkomu á árinu 2008. Exista brást við ytri áföllum á fjórða ársfjórðungi með sölu eigna, meðal annars í Sampo og Storebrand. Söluandvirði eigna notað til að greiða niður skuldir

 

 

Exista á í viðræðum við helstu lánveitendur um fjárhagslega endurskipulagningu og framtíð félagsins.

 

Exista bíður niðurstöðu í dómsmálum um uppgjör gjaldmiðlasaminga við Kaupþing banka og Glitni banka. Niðurstöður þeirra mála munu skipta verulegu máli varðandi afkomu félagsins og eigið fé.

Í uppgjörinu segir að frá falli íslenska bankakerfisins í október 2008 hefur Exista átt í samningaviðræðum við lánveitendur um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins. Eins og tilkynnt var um þann 1. mars 2009 mun Exista ekki greiða vexti og afborganir af skuldbindingum sínum meðan á viðræðum við lánveitendur stendur.

Þann 17. september síðastliðinn réð félagið til sín breska ráðgjafafyrirtækið Talbot Hughes McKillop LLP sem leiðir vinnu við fjárhagslegu endurskipulagninguna og samningaviðræður við innlenda sem erlenda lánveitendur félagsins. Þessar viðræður eru á viðkvæmu stigi og óvíst hver niðurstaða þeirra verður.

 

Í viðræðum við helstu lánveitendur hefur komið fram að vænt endurgreiðsluhlutfall krafna þeirra við hugsanlegt gjaldþrot gæti orðið á bilinu 2-7%. Núvirt sjóðsstreymismat miðað við áframhaldandi rekstur samtæðu bendir til að endurheimtuhlutfall krafna lánveitenda verði á bilinu 17-26% miðað við að eignir félagsins verði seldar.

Jafnframt hefur komið fram að endurgreiðsluhlutfall krafna þeirra geti orðið allt að 64-95%, greitt í peningum til ársins 2023, gangi fjárhagsleg endurskipulagning Exista eftir og eignir verði áfram í samstæðu.

 

Þetta er þó sett fram með fyrirvara og geta breyttar forsendur útreikninga haft nokkur áhrif á endurgreiðsluhlutfallið. Til að hámarka verðmæti lánveitenda hefur komið fram í viðræðum við þá að farsælast sé að komast hjá því að félagið verði leyst upp og að endurskipulagning þess verði frekar byggð á áframhaldandi rekstri í breyttri mynd í takt við minnkandi umsvif félagsins.

Framhaldsaðalfundur Exista í dag staðfesti ársreikning ársins 2008 og samþykkti samhljóða tillögu félagsstjórnar um að greiða ekki út arð.

 

 




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×