Viðskipti innlent

Nýja Kaupþing lokar þremur útibúum á landsbyggðinni

Nýi Kaupþing banki hefur ákveðið að loka þremur útibúum á landsbyggðinni og sameina þau öðrum. Þetta eru útibúin á Akranesi sem sameinað verður Mosfellsútibúi, í Reykjanesbæ sem sameinað verður Hafnarfirði og á Hofsósi sem sameinað verður Sauðárkróksútibúinu.

Vefsíðan Skessuhorn greinir frá þessu. Þar segir að einnig hafi verið ákveðið að stytta afgreiðslutíma þriggja landsbyggðarútibúa þannig að þau verði opin frá klukkan 12:30 til 16. Þetta eru útibúin í Grundarfirði, Vík og Kirkjubæjarklaustri.

Útibúi Nýja Kaupþings á Akranesi verður lokað 7. desember næstkomandi. Búið er að skrifa viðskiptavinum þess bréf þar sem þeim er boðið að færa viðskipti sín í Mosfellsbæ eða í Borgarnes.

Hjá útibúi Nýja Kaupþings á Akranesi starfa tíu manns og hefur þeim öllum verið boðið starf hjá bankanum, flestum í Mosfellsbæ, en einnig í Borgarnesi og í höfuðstöðvum bankans í Reykjavík þangað sem Svanborg Þórdís Frostadóttir útibússtjóri fer til starfa.

Samkvæmt heimildum Skessuhorns er ástæða þessara breytinga sú að verið er að hagræða í rekstri bankans. Þarna sé verið að fella út starfsstöðvar sem hafa ekki haft markaðsráðandi stöðu á fyrrgreindum stöðum. Þá er einnig horft til þess að íbúar þessara staða hafa góðan aðgang að öðrum bankastofnunum og jafnfram stutt fyrir þá að sækja útibú í nágrannasveitarfélögum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×