Viðskipti innlent

CCP flytur öll bankaviðskipti sín á Íslandi til MP Banka

CCP hf. og MP Banki hf. hafa undirritað samninga um endurfjármögnun CCP og flutning allra bankaviðskipta félagsins á Íslandi til MP Banka. Í kjölfar samningsins hefur CCP greitt upp víxla félagsins sem skráðir voru í Kauphöll og voru á gjalddaga þann 28. október.

Í tilkynningu segir að önnur eldri og óhagstæðari lán hafa einnig verið greidd upp og í stað þeirra og víxlanna kemur ný lánsfjármögnun til tveggja ára.

"Félagið nær þarna hagstæðri áframhaldandi lánsfjármögnun í íslenskri krónu með miklum sveigjanleika, sem hentar okkar rekstri. Frumkvæði MP Banka, elsta starfandi banka landsins, í því að efna til samstarfs við öflugt nýsköpunarfyrirtæki í örum vexti, er til fyrirmyndar," segir Vilhjálmur Þorsteinsson, stjórnarformaður CCP.

"Við teljum MP Banka öflugan banka vel í stakk búinn til að veita okkur hagkvæma og góða þjónustu. Starfsemi CCP er alþjóðleg og félagið er með skrifstofur í Bandaríkjunum, Kína og Bretlandi ásamt höfuðstöðvum hér á landi. Bankaþjónustan er því alþjóðleg og í fjölmörgum myntum en tekjur CCP eru nær eingöngu í dollurum og evrum", segir Ívar Kristjánsson, fjármálastjóri CCP.

Rekstur CCP hefur gengið vel og stöðug aukning er í fjölda áskrifenda að sýndarheiminum EVE-Online. Reksturinn skilaði 6,4 milljón dollara hagnaði (um 800 milljón kr.) á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við rétt rúmar tvær milljónir dollara á sama tíma í fyrra.

Tekjur af EVE-Online tölvuleiknum námu 25,4 milljónum dollara (um 3,2 milljörðum kr.) fyrri helming þessa árs en það er rúmlega fjögurra milljóna dala aukning frá í fyrra.

"Við erum sérstaklega ánægð að fá CCP í viðskipti til okkar", segir Árni Maríasson, forstöðumaður Lánasviðs MP Banka. "Við höfum kynnst rekstri CCP vel og teljum fyrirtækið vera afar spennandi. Þá er CCP að gera góða hluti á alþjóðlegum mörkuðum og er að skapa landinu miklar gjaldeyristekjur.

Við hjá MP Banka erum stolt af því að samningar hafa náðst um að MP Banki fjármagni félagið og fái fyrirtækið í heildarviðskipti. Við viljum standa með öflugum fyrirtækjum sem hafa sannað sig og hafa markað sér skynsamlega og trúverðuga stefnu til framtíðar."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×