Viðskipti innlent

Samkomulag um framtíð Íslandsbanka undirritað

Mynd/Anton Brink

Íslandsbanki, skilanefnd Glitnis, fyrir hönd kröfuhafa, og íslenska ríkið hafa undirritað samninga um uppgjör á milli gamla og nýja bankans og endurfjármögnun Íslandsbanka, að fram kemur í tilkynningu. Samkomulagið felur í sér að erlendir kröfuhafar geta eignast stærsta hluta Íslandsbanka.

Umræddir samningar byggja á því samkomulagi sem kynnt var 20. júlí og felur í sér að skilanefnd Glitnis, fyrir hönd kröfuhafa, á þess kost að eignast 95% hlutafjár í Íslandsbanka fyrir 30. september næstkomandi eða fá greiðslu í formi skuldabréfs, útgefnu af Íslandsbanka, og kauprétti á allt að 90% af hlutafé í bankanum á árunum 2011 til 2015.

„Ég er afar ánægð með að samningar séu í höfn enda um mikilvægan áfanga í uppbyggingu íslenska fjármálakerfisins að ræða.  Nú eiga kröfuhafar eftir að ákveða hvort þeir eignist bankann strax eða hvort þeir fái greiðslu í formi skuldabréfs ásamt kauprétti á bankanum,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, í tilkynningu frá bankanum. Birna segir báðar leiðirnar skapa Íslandsbanka trausta og spennandi framtíð.

Núverandi stjórnarmenn munu sitja áfram í stjórn bankans. Í stjórn bankans sitja: Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, formaður, Guðmundur R. Jónsson, Katrín Ólafsdóttir, Martha Eiríksdóttir og Ólafur Ísleifsson.


Tengdar fréttir

Kröfuhafar geta eignast Íslandsbanka

Skrifað verður undir samkomulag um að erlendir kröfuhafar geti eignast stærsta hluta Íslandsbanka á næstu klukkutímum. Fjármálaráðherra segist vongóður um að kröfuhafar vilji eignast bæði Íslandsbanka og Kaupþing en slíkt hefði í för með sér að íslenska ríkið myndi spara um 70 milljarða í eiginfjárframlagi fyrir þessa tvo banka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×