Viðskipti innlent

Ríkið gefur út skuldabréf á morgun

Áformað er að gefa út ríkisbréf í þremur flokkum, á morgun. Um er að ræða annarsvegar nýjan tveggja ára flokk, RB11, ásamt Ríkisbréfum á gjalddaga 2013 (RB13) og Ríkisbréfum á gjalddaga 2025 (RB25). Stærð útboðsins er ekki ákveðin fyrirfram. Þetta kemur fram í Markaðspunktum Kaupþings.

Útboð á óverðtryggðum skuldabréfum hafa farið stigvaxandi það sem af er ári en reyndar var öllum tilboðum í síðasta útboði í júlí hafnað.

Útgáfurnar eru bæði gerðar til að fjármagna hallarekstur ríkisins og til að mæta ríkisbréfum sem falla á gjalddaga. Ríkið þarf meðal annars að fjármagna um 170 milljarða króna fjárlagahalla ársins 2009 og 110 milljarða ráðgerðan halla á næsta ári.

Einnig eru gjalddagar á ríkisbréfaflokkunum RB10-03 (70,5 milljarðar) og RB10-12 (64,5 milljarðar) á næsta ári sem fela í sér töluverða nýja útgáfu. Ágætis búbót fyrir ríkið mun raunar felast í gjalddaga RB10-12 þar sem flokkurinn ber vexti sem eru talsvert yfir markaðsvöxtum, eða 13,75%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×