Viðskipti innlent

Ríkisstjórnir verði djarfari í aðgerðum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Gordon Brown og Dominique Strauss-Kahn For­sætis­ráðherra Breta og framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ræðast hér við um leið og þeir ganga inn í ráðstefnusal Excel miðstöðvarinnar í Lundúnum þar sem G20 fundurinn fór fram í byrjun mánaðarins.
Gordon Brown og Dominique Strauss-Kahn For­sætis­ráðherra Breta og framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ræðast hér við um leið og þeir ganga inn í ráðstefnusal Excel miðstöðvarinnar í Lundúnum þar sem G20 fundurinn fór fram í byrjun mánaðarins. Markaðurinn/AP
Tap fjármálafyrirtækja vegna alþjóðlegu lausafjárkreppunnar gæti numið 4,1 þúsundi milljarða Bandaríkjadala, eða 516 þúsund milljörðum króna. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um fjármálastöðugleika. Horft er til afskrifta og útlánataps á árunum 2007 til 2010.

Í skýrslu AGS kemur fram að fjármálakerfi heimsins verði áfram undir miklu álagi um leið og fjármálakreppan dýpki og nái til heimila, fyrirtækja og fjármálakerfa bæði í þróuðum löndum og nýmarkaðsríkjum. „Samdráttur í heimshagkerfinu reynir á efnahagsreikninga banka um leið og eignir halda áfram að rýrna í verði. Þetta ógnar eiginfjárstöðu bankanna og hefur enn frekari fælingarmátt á ný útlán,“ segir í skýrslunni.

Bent er á merki um að umfangsmiklar aðgerðir til stuðnings einkafyrirtækjum og opinberir aðgerðapakkar séu að skila sér í auknu jafnvægi. „Til þess að viðhalda jákvæðri þróun þarf samt að koma til markviss og skilvirk stefnumörkun ríkisstjórna og samhæfing alþjóðlegra aðgerða.“ Með þeim hætti megi byggja á ný upp traust á fjármálafyrirtækjum heimsins og koma á jafnvægi á mörkuðum. „Helsta áskorunin er að rjúfa vítahring minnkandi umsvifa fjármálakerfisins og efnahagssamdráttarins.“

Til þess að koma fjármálakerfinu á ról á ný eru ríki ekki sögð mega hika við að grípa inn í rekstur fjármálafyrirtækja með fjárframlagi, jafnvel þótt það þýði yfirtöku ríkisins að hluta eða öllu leyti. Tímabundin aðkoma ríkisins megi þó ekki vera með öðrum formerkjum en að koma til aðstoðar og koma eigi fjármálafyrirtækjunum aftur í einkaeigu jafnskjótt og auðið verði.

Meðal þátta sem fjallað er um í skýrslunni er samspil skuldatryggingarálags (e. CDS spread) fjármálafyrirtækja og þjóðríkja. Eðli skuldatryggingarálagsins hafi breyst í fyrrahaust þegar ríki tóku í auknum mæli að ábyrgjast stærstu fjármálafyrirtæki landa sinna. „Á Írlandi lækkaði skuldatryggingarálag banka og nálgaðist álag ríkisins eftir að tilkynnt var um að ríkið gengist í ábyrgðir fyrir bankana. Svipað ferli átti sér stað í Bretlandi.“

Um leið er bent á að ferlið gæti átt sér stað með öfugum formerkjum sem myndi leiða til vítahrings þar sem hærra skuldatryggingarálag á fjármálafyrirtæki kallaði á hækkun á álag ríkisins og öfugt. „Í sumum aðstæðum (svo sem á Íslandi) getur þessi vítahringur stigmagnast að því marki að getuleysi ríkisins til að bjóða fullnægjandi tryggingar fyrir bankarekstur landsins leiðir til samhliða áfalla bæði fjármálakerfisins og gjaldmiðilsins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×