Viðskipti innlent

Slitastjórn skipuð fyrir Kaupþing

Að beiðni skilanefndar Kaupþings hefur héraðsdómur Reykjavíkur skipað slitastjórn fyrir Kaupþing banka í samræmi við nýlegar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki.

Slitastjórn Kaupþings skipa Ólafur Garðarsson, hrl. sem er aðstoðarmaður bankans í greiðslustöðvun, Davíð B. Gíslason, hdl. og Feldís L. Óskarsdóttir, hdl.

„Með skipun slitastjórnar getur formlegt kröfulýsingarferli hafist en skilanefnd Kaupþings mun áfram sinna því hlutverki sínu að vernda eignasafn bankans til að tryggja að sem mest fáist upp í kröfurnar," segir Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings í tilkynningu um málið. „Skipun slitastjórnar breytir því ekki að bankinn getur enn farið í nauðasamninga þegar kröfulýsingarfrestinum lýkur."

Slitastjórn tekur strax til starfa. Hún hefur heimild til að ákveða lengd kröfulýsingarfrestsins sem getur verið frá tveimur mánuðum og upp í sex mánuði.

Fyrsta verk slitastjórnar verður að upplýsa um kröfulýsingarferlið og hvenær kröfuhafar muni geta lýst kröfum í Kaupþing banka innan þess frests sem ákveðinn verður.

Nánari upplýsingar um kröfulýsingarferlið verða auglýstar og kynntar á upplýsingasíðu bankans, www.kaupthing.com. Slitastjórnin mun taka við kröfum, halda skrá um þær og taka afstöðu til þeirra. Ágreiningi um kröfur verður hins vegar vísað til dómstóla til umfjöllunar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×