Lífið

Færir íslensku þjóðinni elginn

Hefur sig til flugs Íslenski elgurinn er á ferð á flugi um landið fyrir tilstilli Hakkarainens.Fréttablaðið/Arnþór
Hefur sig til flugs Íslenski elgurinn er á ferð á flugi um landið fyrir tilstilli Hakkarainens.Fréttablaðið/Arnþór
„Þetta er fyrsti íslenski elgurinn, elgur fólksins og ég mun ekki selja hann nokkrum. Einhverjir munu halda að ég sé snargeðveikur. En ég vona að flestir hafi ánægju af þessu. Ég trúi því að ef við einbeitum okkur bara að slæmu hliðum tilverunnar endum við í vítahring. Til að brjótast úr vítahringnum er best að sjá eitthvað skemmtilegt,“ segir Mikael Hakkarainen.

Hann lagði af stað í gær í ferð um landið með elg sem hann hefur byggt. „Ég vona að fólk brosi þegar það sér þetta. Sumir halda því fram að listin geti ekki bjargað heiminum, en ég trúi því að það sé hægt.“

Mikael er fæddur í Finnlandi en alinn upp í Svíþjóð. Hann kom fyrst til Íslands fyrir fjórum árum þegar hann heimsótti norska málarann Odd Nerdrum. „Ég hef komið nokkrum sinnum til Íslands og fékk þá hugmynd í Stokkhólmi að byggja elg og gefa íslensku þjóðinni hann. Það eru engir elgir á íslandi, en við ætlum að breyta því.“

Hann segir elginn dularfullt dýr og því er aldrei að vita hvert hann fer. Hann rati jafnvel inn á Norðurland og Austfirði þegar líða tekur á sumarið, þó förinni sé heitið til Hafnar að sinni. Teknar verða myndir af elgnum í íslenskri náttúru, auk þess sem stoppað verður í bæjarfélögunum á leiðinni.

„Í Svíþjóð hló fólk að mér og sagði að það væru engir elgir á Íslandi. Ég svaraði að það væri einmitt málið. Af hverju ætti ég að sýna fólki eitthvað sem það þekkir? Þú ferðast ekki um Ísland og sýnir fólki íslenska hestinn.“ - kbs





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.