Viðskipti innlent

Kaupþing ætlar að höfða mál vegna áfrýjunarnefndar neytendamála

Nýi Kaupþing banki hefur sent Neytendasamtökunum svar við fyrirspurn samtakanna um það hvernig bankinn hyggst bregðast við úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála varðandi skilmála bankans um kjörvexti erlendra lána.

Í tilkynningu frá bankanum kemur eftirfarandi fram:

Málið hefur verið til skoðunar og er það mat lögfræðinga Nýja Kaupþings að ekki hafi verið brotið gegn lögum um neytendalán með skilmálum bankans um kjörvexti erlendra lána. Af þeirri ástæðu hefur bankinn ákveðið að höfða mál til ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndarinnar. Samkvæmt lögum um neytendalán hefur Nýi Kaupþing sex mánuði til að höfða málið.

Nýi Kaupþing hefur hins vegar ákveðið, með tilliti til ákvörðunar Neytendastofu, að kynna betur fyrir lántakendum hvaða þættir mynda nákvæmlega kjörvexti bankans. Kynningin verður send á næstu dögum til þeirra viðskiptavina sem eru með slíka lánasamninga.

Rétt er að vekja athygli á að í ákvörðun Neytendastofu kemur fram að telji lántakendur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna skilmála Nýja Kaupþings um kjörvexti erlendra lána verði þeir að rekja slíkt mál á grundvelli skaðabótalaga fyrir dómstólum.

Nýja Kaupþing vill enn fremur taka fram að ákvörðun Neytendastofu á eingöngu við hluta af vöxtum lánanna, ekki lánin sjálf. Umrædd erlend lán til húsnæðiskaupa hafa ekki verið veitt frá stofnun Nýja Kaupþings banka hf.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×