Viðskipti innlent

Óvíst hvort Ólafur tapi sínum stærstu eigum

Það ræðst á næstu dögum og vikum hvort að Ólafur Ólafsson tapar öllum sínum stærstu eignum. Allt stendur og fellur með nauðasamningum sem Egla, dótturfélag í hans eigu, reynir að ná við kröfuhafa.

Egla, sem er dótturfélag Kjalars, hélt fund með kröfuhöfum í gær. Kjalar er að mestu í eigu Ólafs Ólafssonar. Þar var lagt fram frumvarp að nauðasamningum til að bjarga félaginu frá gjaldþroti. 77 einstaklingar, bankar og lífeyrissjóðir eiga 8 milljarða króna kröfu á félagið en 38 þeirra mættu í gær. Í nauðasamningunum er gert ráð fyrir að eignir Eglu dugi til að greiða 15% af þessum kröfum.

Í beiðni um heimild til nauðasamningsumleitana kemur fram að vonir séu bundnar við að eitthvað komi út úr skaðabótakröfu vegna vanefnda Kaupþings á gjaldmiðlaskiptasamningum við félagið. Kjalar mun láta á það reyna fyrir dómi um leið og það verður mögulegt. Innan við fjórðungur kröfuhafa hefur nú þegar samþykkt nauðasamninganna en samþykki hinna liggur ekki fyrir.

Náist nauðasamningarnir ekki er ljóst að Egla stefnir í gjaldþrot. Stærsta eign Eglu er 7,7 milljarða krafa á Kjalar. Á fundinum var gert ráð fyrir að sú krafa væri um 300 milljóna virði í dag. Ljóst er að ef Egla fer í þrot verður gengið mun harðar að því að innheimta kröfuna á Kjalar en þá blasir gjaldþrot einnig við því félagi.

Kjalar á 90% í Samskipum og 33% í HB Granda. Þá átti hollenskt félag í eigu Eglu 40% hlut í Alfesca. Unnið er nú að málefnum þess félags með skilanefnd Glitnis. Eignarhald á þessum félögum mun skýrast á allra næstu vikum en töluverð óvissa er með hvort að Ólafur Ólafsson nái að halda þeim.

Ólafur vildi ekki tjá sig um málið við fréttastofu í dag en lögmaður Kjalars, Kristinn Hallgrímsson, sagði í samtali við fréttastofu að það væri ekki sjálfgefið að Kjalar færi í þrot þó að Egla yrði gjaldþrota því það væru hagsmunir beggja félaganna að láta reyna á skaðabótakröfu Kjalars gagnvart Kaupþingi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×