Viðskipti innlent

Skilanefnd Kaupþings hefur náð 200 milljörðum í hús

Samkvæmt uppfærðri skýrslu skilanefndar Kaupþing til lánadrottna bankans hefur eignasala þegar skilað 200 milljörðum kr. í hús. Megnið af þessari upphæð, eða 135 milljarðar kr., koma frá Svíþjóð þar sem nýlega var gengið frá sölu á bankastarfsemi Kaupþing til Ålandsbanken.

Fram kemur að skilanefndin er sátt við söluna til Ålandsbanken enda tryggir salan að víkjandi lán munu endurheimtast sem og helmingur af hlutaféinu.

Frá Noregi hefur Kaupþing endurheimt um 50 milljarða kr. og frá Finnlandi um 15 milljarða kr.

Hvað Danmörk varðar kemur fram í skýrslunni að ekki standi til að selja FIH bankann í bráð sökum þess hve markaðsaðstæður eru erfiðar í augnablikinu. Umfangmikilli hagræðingu hjá FIH sé nýlokið með uppsögnum starfsfólks og niðurlagningu deilda.

Skilanefndin telur að verðmæti FIH muni aukast í framtíðinni þegar markaðsaðstæður batna.

Þá er einnig fjallað um málefni Kaupþings í Þýskalandi og kemur m.a. fram að viðræðum við þýsk stjórnvöld miði vel áfram. Bankinn hafi þegar tryggt sér nægt fé til að standa við endurgreiðslur þeirra sem áttu inni á Edge-reikningunum.

Fram kemur í skýrslunni að skilanefndinni hafi hingað til tekist að verjast málsóknum, hótunum eða skipunum um frystingu eigna í Bandaríkjunum, Lúxemborg, Hollandi, Spáni og Bretlandi. Og er í augnablikinu að berjast gegn málssókn í Austurríki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×