Erlent

Forsetafrú í húla-hoppi

Óli Tynes skrifar
Forsetafrúin fór létt með húlahoppið.
Forsetafrúin fór létt með húlahoppið. Mynd/AP
Forsetafrúin var gestgjafi um eitthundrað barna og foreldra sem hafði verið boðið í Hvíta húsið til að fræðast um hollan mat og holla hreyfingu.

Matreiðslumeistarar Hvíta hússins voru einnig viðstaddir og sýndu hvernig má búa til gómsætan en jafnframt heilsusamlegan skyndibita.

Eftir að hafa smakkað á matnum var komið að hreyfingunni og Michelle Obama var síst eftirbátur annarra í húla-hoppi sem var vinsælt á Íslandi fyrir allmörgum áratugum. Henni tókst að snúa gjörðinni 142 hringi um mitti sér.

Henni gekk að vísu ekki jafn vel þegar hún reyndi að sippa, en í hindrunarhlaupi þeysti hún berfætt í gegnum allar hindranir á góðum tíma.

Forsetafrúin sagði gestum sínum að það væri allt í lagi að láta stöku sinnum eftir sér að borða eitthvað sem manni þætti ægilega gott, þótt það væri ekki endilega hollt.

Aðalatriðið væri að borða að jafnaði næringarríkan og hollan mat.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×