Innlent

Gott gengi í upphafi varð okkur að falli

Ásgeir Jónsson, höfundur Why Iceland?
Ásgeir Jónsson, höfundur Why Iceland?

„Eitt af því sem varð Íslandi að falli var of gott gengi í upphafi. Efnahagsumbætur eftir hrun þorsksins 1988 og opnun landsins á tíunda áratugnum gáfu landsmönnum góðan aðgang að erlendum fjármagnsmörkuðum og sköpuðu forsendur fyrir 15 ára velmegunartíma," segir Ásgeir Jónsson, hagfræðingur og forstöðumaður greiningardeildar Nýja Kaupþings. „En því miður fórum við fram úr sjálfum okkur undir lokin með hrapallegum afleiðingum."

Á föstudag kom út bók eftir Ásgeir sem ber heitið Why Iceland? eða Af hverju Ísland? Í bókinni fjallar Ásgeir um aðdraganda hrunsins og hvað hafi farið úrskeiðis hérlendis. Ásgeir lýsir meðal annars stöðutöku erlendra vogunarsjóða gegn krónunni. Hann segir að frá árinu 2006 hafi Íslendingar litið útrás bankanna öðrum augum en útlendingar. Íslendingar hafi séð yfirtökur á erlendum stofnunum sem alþjóðavæðingu og áhættudreifingu en erlendir aðilar hafi séð hana sem stækkun íslenska bankakerfisins.

Hann segir að bankahrunið sjálft hafi ekki verið óumflýjanlegt. Því miður hafi íslensku bankarnir byrjað of seint að selja eignir þó allar aðgerðir hefðu ávallt verið sársaukafullar. Ekki hafi heldur verið til nægur gjaldeyrisforði til þess að yfirvöld gætu gripið inn í með trúverðugum hætti. Einnig skorti tilfinnanlega samvinnu milli Seðlabankans og bankanna. „Það sem gerði þó lokaútslagið var alger neitun frá stærstu seðlabönkum hins vestræna heims að koma Íslandi til hjálpar".

Aðspurður segir Ásgeir bókina ekki vera persónulegt uppgjör við þátttöku sína í íslenska bankaævintýrinu. Hann sé aðeins sögumaður og reyni að sýna heiðarleika sem slíkur. „Ég neita þó ekki minni ábyrgð," segir hann. Það sé þó nokkuð annað að horfa fram en aftur. Honum finnst þó nokkurrar ósanngirni gæta í umræðunni um hvað greiningardeildirnar eigi að hafa sagt og ekki sagt. Hann bendir á að sérfræðingar Citigroup hafi mælt með kaupum á hlutabréfum í Kaupþingi í júlí 2007.

„Staðreyndin er þó sú að nær enginn bjóst við því að fjármálakreppan yrði jafn djúp og raun bar vitni og í kjölfarið er ljóst að mörg viðtekin lögmál í bankarekstri verða nú tekin til endurskoðunar. Það nægir að nefna að árið 2008 hafði enginn banki í Evrópu orðið gjaldþrota í þrjátíu ár. Þar fyrir utan er líklega enginn Íslendingur samur eftir atburði vetrarins ég er þar vitanlega meðtalinn."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×