Viðskipti innlent

Upplýsingaskylda hvílir á útgefendum segir kauphöllin

Kauphöllin hefur sent frá sér yfirlýsingu Í tilefni af ákvörðun nokkurra útgefenda skuldabréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta í kauphöllinni um að birta ekki ársuppgjör. Kauphöllin vil árétta að eftir sem áður hvíli upplýsingaskylda á útgefendum.

„Þrátt fyrir að útgefendur skuldabréfa, þar sem nafnverð hverrar einingar á útgáfudegi jafngilti a.m.k. 50.000 evrum, séu undanþegnir reglulegri upplýsingaskyldu, hvílir engu að síður upplýsingaskylda á útgefendum samkvæmt öðrum ákvæðum laga... um verðbréfaviðskipti, einkum XIII. kafla," segir í yfirlýsingunni.

Samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti er útgefanda skylt að birta almenningi á EES allar þær innherjaupplýsingar sem varða hann eins fljótt og auðið er og á jafnræðisgrundvelli.

„Samkvæmt 120. gr. laganna er með innherjaupplýsingum átt við (1) nægjanlega tilgreindar upplýsingar sem ekki hafa verið gerðar opinberar og (2) varða beint eða óbeint útgefendur fjármálagerninga, fjármálagerningana sjálfa eða önnur atriði og eru (3) líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninganna (4) ef opinberar væru, eins og nánar er kveðið á um í reglugerð....

Á útgefanda skuldabréfa hvílir rík upplýsingaskylda vegna innherjaupplýsinga. Engu breytir þótt útgefandi sé undanþeginn skyldu til birtingar reglulegra upplýsinga. Þótt útgefanda sé ekki skylt að birta opinberlega ársreikning gæti hann innihaldið innherjaupplýsingar sem rétt væri að birta opinberlega. Áréttað skal að greiðsluerfiðleikar leysa útgefanda ekki undan upplýsingaskyldu.

Af þessu má sjá að umrædd grein sem útgefendur skuldabréfa hafa vísað til, til réttlætingar á því að birta ekki ársuppgjör veitir takmarkað svigrúm til að fresta eða fella niður upplýsingagjöf um fjárhagslega afkomu útgefanda.

Í þessu ljósi mun Kauphöllin á næstu dögum skoða hvert og eitt mál varðandi umræddar ákvarðanir útgefenda og fjalla um þau samkvæmt þeim verkferlum sem hún fylgir um mál af þessu tagi. Að lokinni skoðun verður gripið til viðeigandi ráðstafana eftir atvikum og aðstæðum."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×