Erlent

Baráttan við eldana enn erfið

Vatni varpað úr flugvél Sautján flugvélar af þessu tagi eru nú notaðar við baráttuna gegn skógareldunum á Grikklandi.fréttablaðið/AP
Vatni varpað úr flugvél Sautján flugvélar af þessu tagi eru nú notaðar við baráttuna gegn skógareldunum á Grikklandi.fréttablaðið/AP

Örþreyttir slökkviliðsmenn og sjálfboðaliðar unnu baki brotnu í gær, fjórða daginn í röð, við að halda skógareldum við útjaðar Aþenu í skefjum.

Aukin aðstoð frá öðrum ríkjum barst í gær, bæði flugvélar sem dreifa vatni og liðsauki í slökkvistarfið.

Rýma þurfti nunnuklaustur St. Efraíms norðan við borgina. Aldraðar nunnur voru fluttar á brott meðan barist var við eldinn með garðslöngum og sandmokstri.

„Logarnir stóðu þrjátíu metra upp í himininn,“ sagði ein af nunnunum. „Sem betur fer komu þeir og björguðu okkur.“

Miklir eldar loguðu á sex stöðum í Grikklandi í gær, þar á meðal á eyjunum Evia og Skýros á Eyjahafi og á eyjunni Zakinþos við vestanvert landið.

Hættulegastir voru þó eldarnir við höfuðborgina Aþenu sem hófust norðan við Maraþonsléttu og hafa borist yfir Pentelifjall rétt norðan við borgina.

Sterkur vindur nærir eldana, sem hafa ætt yfir 26 þúsund hektara af skóg- og kjarrlendi, eyðilagt fjölda húsa og neytt þúsundir manna til að flýja heimili sín.

Að minnsta kosti fimm manns hafa þurft á læknishjálp að halda vegna brunasára og nokkrir tugir eiga við öndunarerfiðleika að stríða, en engin alvarleg slys hafa þó enn átt sér stað.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×