Erlent

Neyðarástand vegna flóða í Norður-Englandi

Óli Tynes skrifar

Breskur þingmaður sagði að í Kumbríu þar sem mikil flóð hafa verið hafi varnirnar miðast við stórflóð eins og þau gætu orðið verst á eitthundrað ára fresti.

Ljóst væri að til þess að standa þetta af sér hefði þurft þúsund ára viðmiðun.

Á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti í Norður-Bretlandi hefur úrkoman verið upp í þrjátíu og einn sentimetra á tuttugu og fjögurra klukkustunda tímabili.

Það er um þriðjungur af ársúrkomu í Reykjavík á aðeins einum sólarhring. Þetta hefur meðal annars valdið því að margar ár hafa flætt yfir bakka sína.

Í borgum og bæjum er slíkur vatnselgur á götum að fólk getur varla staðið af sér strauminn ef það reynir að komast á milli húsa.

Bílar og annað brak skapa líka stórhættu þar sem það berst með straumnum.

Þá hefur vatnselgurinn einnig sópað burt brúm. Á þessari stundu er ekki vitað hversu margir hafa farist.

Herinn var kallaður út til þess að veita aðstoð á flóðasvæðunum. Þyrlur hans hafa verið í stöðugum ferðum og hafa bjargað tugum manna.

Hermenn nota meðal annnars gúmmíbáta til að fara hús úr húsi til þess að leita að eldra fólki og sjúku sem hefur orðið innlyksa í húsum sínum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×