Erlent

Cheney ræðst harkalega á Obama

Óli Tynes skrifar
Dick Cheney fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna hefur gagnrýnt Barack Obama óvenju harkalega fyrir vingulshátt í stríðsrekstrinum í Afganistan.

Hefð er fyrir því að fyrrverandi forsetar og varaforsetar Bandaríkjanna gagnrýni ekki þá sem taka við af þeim. Þá hefð hefur George Bush haldið.

En Cheney var ekkert að skafa utan af því þegar hann flutti ræðu hjá hugmyndasmiðju í Washington.

Hann sagði að Obama hefði kynnt stefnu sína í Afganistan í mars síðastliðnum. Síðan hafi ekkert gerst.

Forsetinn virðist hræddur við að taka ákvarðanir og ófær um að láta herforingjum sínum í té þann mannafla sem þeir þurfi til þess að ljúka verkinu.

Vingulsháttur hans skaðaði bandamenn og ógnaðí öryggi hermanna.

Cheney rakkaði einnig forsetann niður fyrir stefnu hans gagnvart Íran, Írak, Guantanamo fangelsinu og upplýsingaöflun leyniþjónustunnar.

Þá húðskammaði hann Obama fyrir að hætta við að setja upp loftvarnaflaugakerfi í Evrópu.

Hann sagði að það væru stórfelld herfræðileg mistök og svik við bandamenn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×