Innlent

Söngvarinn lífshættulega slasaður

Bandarískur tónlistarmaður sem féll út um glugga á þriðju hæð húss við Skólavörðustíg í gærmorgun er mikið slasaður og enn í lífshættu.

Maðurinn heitir Duncan McKnight og er söngvari í hljómsveitinni the Virgin Tongues sem halda átti tónleika með íslensku hljómsveitinni Singapor Sling á veitingastaðnum Sódómu í Reykjavík í kvöld. Hann og félagar hans í hljómsveitinni gistu í húsinu þar sem slysið átti sér stað.

Baldvin Páll Dungal sem er vinu hljómsveitarmeðlimanna og hafði milligöngu um að hljómsveitin kæmi hingað til Íslands, segir að McKnight sé enn í lífshættu en hann sé ekki höfuðkúpubrotinn eins og áður hafi verið fullyrt í fjölmiðlum. Baldvin segir að hann og félagar söngvarans séu miður sín vegna slyssins. Þeir vaka yfir McKnight á spítalanum þar sem honum er haldið sofandi. Tvær hljómsveitir hlaupa í skarðið fyrir Virgin Tongues í kvöld, Kimano og Kid Twist sem munu troða upp á Sódómu ásamt Singapor Sling og mun allur ágóði renna til meðlima Virgin Tongues.

Hljómsveitin hafði meðal annars fyrirhugað að taka upp sína fyrstu hljómplötu á meðan á dvöl þeirra stæði í Reykjavík. Hljómsveitin er skipuð þremur mönnum á aldrinum 21 til 26 ára og hefur hljómsveitin starfað í um tvö ár og gert út frá Berlín í Þýskalandi. Tveir hljómsveitarmeðlima eru frá Kaliforníu í Bandaríkjunum en sá þriðji er breskur sem ólst upp í Þýskalandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×