Viðskipti innlent

Saga Investments borgar 1,7 milljarð fyrir deCODE

Saga Investments mun borga a.m.k. 14 milljónir dollara, eða um 1,7 milljarð kr., fyrir deCODE. Þar að auki mun Saga Investments láta deCODE í té hlutabréf í B-flokki (junior stock) að upphæð 7,2 milljónir dollara eða tæplega 900 milljónir kr.

Þetta kemur fram í frétt á Bloomberg fréttaveitunni þar sem greint er frá umsókn deCODE um gjaldþrotavernd fyrir dómstóli í Delaware. Þar kemur fram að greiðslufall hafi orðið á skuldabréfum deCODE í október s.l. upp á 230 milljónir dollara. Eins og fram hefur komið í fréttum eru heildarskuldir deCODE 314 milljónir dollara eða um 39 milljarðar kr.

Saga Investments mun strax leggja fram 11 milljónir dollara til deCODE og er þeirri upphæð ætlað að fjármagna deCODE meðan á gjaldþrotaverndinni stendur. Við lok hennar greiðir Saga svo 3 milljónir dollara í viðbót.

Fram kemur í frétt Bloomberg að auk þessa mun deCODE fá 25% af verðmæti þeirra eigna sem Saga endurselur úr deCODE á næstu tveimur árum, það er umfram fyrrgreindar 3 milljónir dollara.

deCODE fór fram á það við dómarann í Delaware að öðrum tilboðum í fyrirtækið ætti að skila inn fyrir 17. desember n.k. Uppboð færi svo fram þann 21. desember og staðfesting á sölu fyrirtækisins lægi fyrir þann 22. desember.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×