Erlent

Vélréttindi - ný fræðigrein innan lögfræðinnar

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
„Nú leita ég réttar míns!“
„Nú leita ég réttar míns!“

Samfélög heimsins þurfa fyrr en síðar að ákveða hvaða mannréttindi þau hyggjast veita vélmennum að mati lögfræðings við háskólann í San Diego.

Það er Anna Russel við San Diego-háskólann sem teflir fram þeirri skoðun sinni að eftir því sem bilið milli véla og manna minnki þurfi mennirnir hreinlega að gera það upp við sig hvar þeir standi gagnvart vélmennum. Einhverjum detta kvikmyndirnar um tortímandann þegar í hug og sjá fyrir sér hörkulega ásjónu ríkisstjóra Kaliforníu sem gerði þann myndaflokk ódauðlegan enda kemur ekki á óvart að breska blaðið Telegraph hafi einmitt valið að myndskreyta frétt sína um málið með honum.

Russel segir að fyrr eða síðar komi að því að vélmenni heimsins taki að krefjast ákveðinna réttinda, gervigreind vaxi nú fiskur um hrygg sem aldrei fyrr og réttarkerfi þeirra samfélaga sem nýti sér krafta vélmenna muni á einhverjum tímapunkti neyðast til að skilgreina hvar vélarnar standi lagalega séð gagnvart mönnum. Þróuð vélmenni sem orðin séu meðvituð um sjálf sig muni að lokum krefjast slíkrar skilgreiningar.

Þessi fyrirheit hljóma ef til vill óhugnanlega en Russel skirrist þó ekki við að setja þau fram í grein í tímaritinu Computer Law and Security Review. Þar bendir hún meðal annars á að fyrr á þessu ári hafi vélrænir vísindamenn, búnir þeim eiginleika að geta hugsað og dregið ályktanir, komið fram á sjónarsviðið. Russel klykkir út með því að benda á að einhvern tímann komi að því að vélmennin muni krefjast kynferðislegs frelsis og hvað gerist þá?








Fleiri fréttir

Sjá meira


×