Viðskipti innlent

Raunverð fasteigna hefur lækkað um 28% á tveimur árum

Raunverð fasteigna, mælt með vísitölu íbúðaverðs frá Fasteignaskrá Íslands og raunvirt með vísitölu neysluverðs frá Hagstofu Íslands, hefur lækkað um 28% frá meðalverði ársins 2007.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Þar segir að vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,1% í október frá fyrri mánuði og hefur nú lækkað um 10% að nafnvirði og 18% að raunvirði síðustu 12 mánuði.

Í nýjustu Peningamálum Seðlabanka Íslands er fjallað um aðferðafræðina að baki vísitölu íbúðaverðs og muninn á henni og aðferðafræði Hagstofunnar. Við útreikning á vísitölu Fasteignaskrárinnar er sleppt þeim skiptum sem andvirði húsnæðis er greitt með annarri fasteign, það er að segja þegar makaskipti eiga sér stað. Hlutfall þeirra hefur legið á bilinu 30% - 50% svo áhrif þessa eru vafalaust þónokkur.

Jafnframt birtir Fasteignaskráin vísitöluna mánaðarlega og byggir á kaupsamningum hvers mánaðar. Sveiflur geta því verið töluverðar eftir árstíðum, að því er segir í Hagsjánni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×