Viðskipti innlent

Ring er nýtt vörumerki Símans á farsímamarkaðinum

Miðvikudaginn 25. nóvember verður Ring, nýju vörumerki Símans á farsímamarkaði, ýtt úr vör. Ring er ný þjónusta sérstaklega sniðin að þörfum ungs fólks sem gerir miklar kröfur um gæði og hagstætt verð. Fyrir 1.990 krónur á mánuði geta viðskiptavinir hringt og sent SMS innan kerfa Símans fyrir 0 krónur í alla viðskiptavini Símans, 160 þúsund talsins.

Í tilkynningu segir að innifalin er 990 króna inneign í öll önnur kerfi. Öll þjónusta Ring fer fram hjá Símanum og viðskiptavinir hringja á GSM og 3G kerfum Símans.

Þjónustuleiðir eru tvær:

Fyrir 1.990 krónur á mánuði geta viðskiptavinir hringt og sent SMS innan allra kerfa Símans fyrir 0 krónur í alla viðskiptavini Símans, 160 þúsund talsins. Innifalið er 1500 mínútur/SMS innan kerfis og 990 króna inneign í öll önnur kerfi.

Fyrir 990 krónur á mánuði geta viðskiptavinir Ring hringt og sent SMS fyrir 0 krónur í alla þá sem eru í Frelsi Símans, um 60 þúsund talsins. Innifalið er 1500 mínútur/SMS innan kerfis og 990 króna inneign í öll önnur kerfi.

Þjónustan byggir á fyrirframgreiddum inneignum og fer öll áfylling rafrænt fram, ýmist í gegnum farsímann eða þjónustuvefsíðu Ring á www.ring.is, sem fer í loftið miðvikudaginn 25. nóvember.

Viðskiptavinum Ring munu bjóðast farsímar á góðum kjörum og fylgir innifalin notkun með hverjum seldum farsíma.

Auk þess hefur Ring gert samninga við skyndibitastaði, verslanir og kvikmyndahús um veglega afslætti fyrir viðskiptavini Ring. Á meðal samstarfsaðila eru Domino´s, Serrano, Smárabíó, Háskólabíó, Borgarbíó Akureyri, Regnboginn og NTC.

„Fyrir Símann er það stórt og spennandi skref að bjóða nýtt vörumerki. Sérstaða Ring er að viðskiptavinirnir geta hringt á 0 kr. innankerfis í alla viðskiptavini Símans, 160 þúsund manns. Þannig kemur Ring til dæmis til móts við þarfir fjölskyldna sem sjá hag sinn í að unglingarnir og foreldrarnir séu innan sama kerfis. Sá sem skráir sig í Ring á því í raun hvorki meira né minna en 160 þúsund vini, sem er heildarfjöldi viðskiptavina Símans," segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans í tilkynningunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×