Viðskipti innlent

Búist við enn frekari lækkun fasteignaverðs

Frá Kópavogi. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Frá Kópavogi. Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Búast má við langvinnri niðursveiflu á íbúðamarkaði í kjölfar kreppunnar. Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að íbúðaverð muni lækka um 20% að nafnvirði á þessu ári og um 10% til viðbótar á næsta ári.

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,7% í maí frá fyrri mánuði samkvæmt vísitölu Fasteignaskrár Íslands. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur nú lækkað nær samfellt undanfarið ár um samtals 10,5% að nafnvirði og 20% að raunvirði.

Endurspeglar lækkunin þann mikla samdrátt sem á sér nú stað á íbúðamarkaði og í hagkerfinu öllu.

Frá áramótum talið hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkað um 9% að nafnvirði. Íbúðir í fjölbýli hafa lækkað um 9,4% og íbúðir í sérbýli um 8%. Mun meiri velta er á íbúðamarkaði með íbúðir í fjölbýli sem skýrir mismunandi verðmyndun.

Í árferði líkt og því sem nú ríkir eru það aðallega litlar fjölbýlisíbúðir sem ganga kaupum og sölum á meðan stærri og dýrari eignir eru illseljanlegar enda erfitt að fjármagna slík kaup um þessar mundir.

Spá greiningardeildar Íslandsbanka er svipuð og spá Seðlabankans fyrir sama tímabil. Gangi þessar spár eftir mun íbúðaverð í árslok 2010 hafa lækkað um helming að raunvirði frá því að það náði toppi í lok árs 2007.



Fjárfesting í íbúðarhúsnæði dregst saman

Auk þess sem velta hefur dregist saman á íbúðamarkaði og verð hefur lækkað er kominn fram mikill samdráttur í fjárfestingu í íbúðarhúsnæði. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs dróst fjárfesting í íbúðarhúsnæði saman um helming samanborið við sama tímabil fyrra árs.

Búast má við að íbúðarfjárfesting muni halda áfram að dragast saman allt fram á næsta ár e spá Seðlabankans gerir ráð fyrir að fjárfesting muni dragast saman um tæplega 50% á þessu ári og 25% á næsta ári.

Fyrir kreppuna var fjárfestingarstigið í hagkerfinu hátt enda verð íbúðarhúsnæðis hátt miðað við byggingarkostnað. Nú hefur þetta dæmi hins vegar breyst og kostnaður hækkað á sama tíma og verðið hefur lækkað og væntingar skapast um enn frekari verðlækkun. Lausafjárerfiðleikar og kaupmáttarrýrnun ásamt almennri eiginfjárrýrnun hjá heimilunum setur einnig strik í reikninginn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×