Viðskipti innlent

Engir fjármunir færðir frá Spron yfir í Nýja Kaupþing

Í ljósi umræðu í fjölmiðlum í dag vill Nýja Kaupþing árétta að í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið tók yfir rekstur SPRON fóru stjórnvöld þess á leit við Nýja Kaupþing að allar innstæður fyrrum viðskiptavina SPRON og nb.is færðust yfir til bankans. Í tilkynningu frá Nýja Kaupþing segir að meginmarkmið stjórnvalda með þessu hafi verið að tryggja aðgengi fyrrum viðskiptavina SPRON að innstæðum sínum enda eru allar innstæður tryggðar samkvæmt yfirlýsingu ríkistjórnarinnar.

Þá segir að þessi yfirfærsla hafi gengið vonum framar og fyrrum viðskiptavinir SPRON hafi getað stundað almenn bankaviðskipti allt frá því tilmælin bárust frá ríkistjórninni. Fjöldi starfsmanna Nýja Kaupþings hefur lagt nótt við dag til að yfirfærslan hefði sem minnsta röskun í för með sér fyrir fyrrum viðskiptavini SPRON. Þá hefur bankinn ráðið til sín um 20 fyrrum starfsmenn SPRON.

„Innstæðurnar sem færðust yfir í bankann að beiðni yfirvalda voru í raun skuld SPRON við viðskiptavini sína og voru engir fjármunir færðir til Nýja Kaupþings við aðgerðina. Þessi skuld nemur um 83 milljörðum króna. Þar sem innstæður eru forgangskröfur eru allar eignir fyrrum SPRON að veði fyrir þeim skuldbindingum sem Nýja Kaupþing tók yfir.

Nýja Kaupþing taldi því nauðsynlegt strax frá byrjun að gengið yrði frá skuldabréfi vegna innstæðna áður en farið væri að huga að sölu eigna SPRON. Það er af og frá að bankinn vilji með þessu sjónarmiði koma í veg fyrir samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði.

Það er meginmarkmið starfsfólks bankans að nýjum viðskiptavinum Nýja Kaupþings verði tryggður réttur til eðlilegra bankaviðskipta, til jafns við alla viðskiptavini bankans og þeir verði fyrir sem minnstum óþægindum vegna breyttra aðstæðna á íslenskum fjármálamarkaði."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×